Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 4. 2012 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2013: Morten Örum Madsen (3. grein af 28)

Morten Örum Madsen er einn af 4 kylfingum, sem urðu í 16. sæti á lokaúrtökumóti  Q-school Evrópumótaraðarinnar sem fram fór á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni og marði hann því rétt að komast inn og hljóta kortið sitt fyrir keppnistímabilið 2013. Hann er jafnframt hinn Daninn sem að þessu sinni hlaut kortið sitt í gegnum Q-school en landi hans Lasse Jensen, sem varð í 24. sæti var kynntur til sögunnar í gær.

Morten er fæddur í Silkeborg, Danmörku 9. apríl 1988 og varð því 24 ára á árinu. Morten gerðist atvinnumaður 2011 og er sem stendur nr. 456 á heimslistanum.

Áhugamál Morten eru fótbolti, handbolti og líkamsrækt.

Þetta er í fyrsta sinn sem Morten reynir að komast á Evrópumótaröðina í gegnum Q-school og reyndar var hann bara að reyna að bæta stöðu sína því hann var búinn að tryggja sér kortið sitt með 19. sæti á Áskorendamótaröðinni.

Hann átti ágætis ár á Áskorendamótaröðinni varð m.a. T-2 á the Pacific Rubiales Colombia Classic, en þaðan kom hann af Nordea túrnum, sem hann spilaði á 2011.  Á Áskorendamótaröðinni í ár varð hann líka meðal 10 efstu í M2M Russian Challenge Cup og  Scottish Hydro Challenge.

Það verður gaman að fylgjast með Morten á fyrsta ári sínu á Evrópumótaröðinni og spennandi að sjá hvað hann gerir!