Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 5. 2012 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2013: Carlos Del Moral (4. grein af 28)

Spánverjinn Carlos del Moral er einn af 5 kylfingum sem rétt sluppu inn á Evrópumótaröðina í gegnum lokaúrtökumót Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 24.-29. nóvember s.l.

Hann er ekki „nýr strákur“ á Evróputúrnum heldur einn af þeim, sem varð að fara aftur í Q-school til þess að halda keppnisrétti sínum.

Það er annað en var upp á teningnum 2010 en þá náði Carlos del Moral þeim glæsilega árangri að verða í 2. sæti á Q-school Evrópumótaraðarinnar, en lokaúrtökumótið fór líka fram á PGA Golf Catalunya vellinum í Girona, á Spáni í desemberbyrjun, 4.-10. desember 2010.

Hann er því öllum hnútum kunnur á PGA Golf Catalunya golfstaðnum.

Carlos del Moral fæddist 30. ágúst 1985 í Escorpion, í Valencia, á Spáni og er því 27 ára.

Hann þótti þegar mjög efnilegur sem unglingur, sigraði m.a. Duke of York Young Champions Trophy árið 2002, sama mót og Guðmundur Ágúst sigraði í 2010 og Ragnar Már nú s.l. sumar.

Carlos spilaði síðan í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Oklahoma, en liðsfélagi hans var bandaríski atvinnukylfingurinn Anthony Kim.

Carlos Del Moral varð atvinnumaður í golfi árið 2005 og spilaði fyrst á Challenge mótaröðinni, þar sem hann vann m.a.Texbond Open.

Árin 2009 og að hluta 2010 spilaði hann á Evrópumótaröðinni; hann spilaði þó mestmegnis á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour) 2010, þar sem hann vann 2. sigur sinn á atvinnumannsferlinum á M2M Russian Challenge Cup 2010.