Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 8. 2012 | 19:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2013: Callum Macaulay (7. grein af 28)

Skotinn Callum Macaulay er einn af þeim 4 sem urðu í 20. sæti á lokaúrtökumóti Q-school Evrópumótaraðarinnar á PGA Catalunya golfstaðnum í Girona á Spáni, sem fram fór 24.-29. nóvember í s.l. mánuði og tryggði sér þar með keppnisrétt 2013 á Evrópumótaröðinni. Hann hefir áður tekið þátt í Q-school, árið 2009 en þá fór hann upp í gegnum öll 3 stigin og spilaði í lokaúrtökumótinu.

Macaulay er fæddur 6. desember 1983 í Falkirk í Skotlandi og varð því 29 ára í fyrradag. Hann gerðist atvinnumaður 2008. Callum Macaulay kvæntist eiginkonu sinni, Claire-Marie, í fyrra, 2011. Aðaláhugamálin eru golf og ruðningsbolti.

Macaulay er nr. 634 á heimslistanum í dag. Hann hefir m.a. verið í landsliði Skota í ýmsum alþjóðakeppnum m.a.:  Amateur Eisenhower Trophy 2008 (sigurvegarar) St Andrews Trophy 2008 (Skotar sigrðu) Bonallack Trophy 2008 (Skotar sigrðuð) og síðan í  Seniors  liðunum 2007-2008.