Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2013 | 20:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2013: Moritz Lampert – (23. grein af 28)

Í kvöld er komið að því að kynna fyrstan af 3 kylfingum sem deildu 4. sætinu í Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Catalunya golfvöllunum í Girona á Spáni; þ.e. Þjóðverjann Moritz Lampert.  Hinir tveir kylfingarnir sem deildu 4. sæti með Lampert eru Estanislao Goya frá Argentínu og Peter Erofejeff frá Finnlandi.

Moritz Lampert

Moritz Lampert

Moritz Lampert fæddist í 14. maí 1992 og er því 20 ára. Í Þýskalandi er hann í GC St. Leon Rot, sem mörgum Íslendingnum er að góðu kunnur.  Þar byrjaði Moritz að spila golf 6 ára þegar afi hans tók hann með sér út á völl. Þegar hann varð 13 ára gerði hann sér grein fyrir að ef hann ynni hörðum höndum að því gæti hann orðið atvinnumaður. Átrúnaðargoð hans í uppvextinum, eins og hjá svo mörgum öðrum var Tiger Woods, en nú hefir Woods vikið fyrir aðdáun Moritz á landa sínum (sem hann líkist reyndar mjög) Martin Kaymer, sem hann hitti á BMW International Open.

Moritz íhugaði að spila golf í bandaríska háskólagolfinu en ákvað að gerast atvinnumaður í staðinn og er ákveðinn í að ná einhverju af 80 estu sætunum á Race to Dubai 2013.  Moritz er mikill vinur Þjóðverjans Max Kieffer, sem líka spilaði á Áskorendamótaröðinni 2012 og er nú nýliði á Evrópumótaröðinni eins og Moritz.

Moritz var í raun að keppa um efsta sætið allan tímann í 6 hringja lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, þá enn áhugamaður en gerðist atvinnumaður um leið og það lá fyrir að hann deildi 4. sætinu (uppreiknað varð hann í 6. sæti).   Hann á að baki mjög farsælan feril sem áhugamaður en hann sigraði m.a. í finnska, þýska og portúgölsku meistaramótum áhugmanna 2012.  Moritz tók líka þátt í  Junior Ryder Cup árið 2010, en það ár vann hann meistaramót í Frakkandi og Þýskalandi í piltaflokki.