Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2014 | 10:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2015: Tom Murray (14/27)

Tom Murray varð í 14. sæti á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar, á PGA Catalunya í Girona á Spáni.

Thomas Murray fæddist í Manchester á Englandi, 16. janúar 1990 og er því 24 ára.  Hann á þannig sama afmælisdag og Ásta Birna okkar Magnúsdóttir. Tom býr í bænum Lymm í Englandi.

Hann fylgir í fótspor föður síns fyrrum Evróputúrs kylfingsins Andrew og spilar nýliðaár sitt í Race to Dubai ef að hafa náð áðurgreinda 14. sætinu á lokaúrtökumótinu.

Á fyrsta mótinu sem Tom tók þátt í 2014 var hann kylfusveinn hjá pabba sínum, Andrew, á lokaúrtökumóti fyrir Öldungamótaröð Evrópumótaraðarinnar í Portúgal, þar sem pabbinn komst í gegn.

Tom segir reynslu sína af því að vera kaddý með föður sínum í þessu lokaúrtökumóti hafa hjálpað sér að ná þeim árangri sem hann gerði í lok árs í PGA Catalunya, en mótinu þar lauk 20. nóvember.

Pabbi hans var kylfusveinn í það sinn, sem og í nokkrum mótum s.l. 2 ár, þar sem Tom spilaði á Áskorendamótaröðinni m.a. á  Scottish Hydro Challenge árið 2012, þar sem Tom náði besta árangri sínum, T-10 árangri.

Tom vonast til að geta bætt árangur föður síns á Evrópumótaröðinni og sigrað í 2 mótum þ.e. tvöfaldað árangur pabbans, Andrew.

Í lok þessarar stuttu kynningar á Tom Murray mætti geta að hann er mikill stuðningsmaður Manchester United.