Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 11. 2012 | 11:00

Ný Rory McIlroy veggmynd í Belfast

Er einhver kylfingur á leið til Belfast í golf? Ef svo er, er ekki úr vegi að koma við í Damascus Street í suðurhluta borgarinnar og líta á nýjasta listaverk, listamannsins Danny Devenny, sem unnið var að beiðni húseigandans Declan Boyle.  Þetta er veggmynd af nr. 2 á heimslista karlkylfinga, Rory McIlroy, sem teygir sig eftir heilli húshlið.

Skoðanir eru skiptar um verkið; það átti að lífga upp á fremur fátæklegt umhverfi sitt og þótt flestum sé slétt sama um veggmyndina eða séu alveg búnir að venjast henni, þá er alltaf einhverjum sem finnst hún gera lítið úr fólkinu í hverfinu og tilgangurinn sé enginn að hafa hana á þessum stað. Sýnist sitt hverjum.

Ef verkið er skoðað nánar er einkum merkilegt hvað listamenn eru lunknir við að ná skrítnum andlitssvipum og að kanínur eru neðst í vinstra horni myndarinnar. Skyldi Rory hafa laumast í golf í Sandgerði?