Ragnheiður Jónsdóttir | október. 12. 2011 | 20:00

Ný greinaröð á Golf 1 – Kylfingar 19. aldar

Hér á Golf 1 fer nú af stað ný greinaröð: kylfingar 19. aldar.  Kynntir eru til sögunnar helstu kylfingar sem fæddir voru 1800 og eitthvað. Þetta er öldin, sem við Íslendingar vorum enn undirokuð af Danakonungi og bjuggum í moldarkofum, meðan heldri menn um alla Evrópu spiluðu golf.  Flestallir Evrópubúar strituðu reyndar myrkranna á milli – golf var íþrótt aðalsins, þeirra sem ekki höfðu neitt annað við tíma sinn að gera, en að drekka te, spila golf og fara á kvennafar á kvöldin, því flestallir sem spiluðu golf á 19. öld voru karlmenn. Af þeim 37 kylfingum, sem fæddir eru á 19. öld og ætlunin er að kyna til sögunnar eru 31 karl og 6 konur. Flestallt Skotar og Bretar.

Golf var og er karlaíþrótt; t.d. er enn í dag verðlaunafé á helstu mótaröðum karla margfalt hærra en á mótaröðum kvenna. Í opnum golfmótum hérlendis er hlutfall kvenna sem þátttakenda oft svipað og hlutfall þeirra kvenna sem gátu sér orðs á 19. öld – þær eru u.þ.b. 15-20% ef vel lætur  En þetta er nú efni í allt aðra grein … Tilbaka á 19. öldina….

Árið 1850 og næstu ár á eftir byggðu Viktoría Bretlandsdrottning og Albert prins Balmoral kastala í skosku hálöndunum og þar með jukust samgöngur við Skotland, en golf hafði verið spilað þar svo öldum skipti. St. Andrews varð t.a.m. áfangastaður lesta frá London árið 1852.  Bættar samgöngur urðu til þess að ferðamannastraumur jókst til Skotlands og meiri áhugi varð á skoskri sögu.

Á 19. öldinni gerbreytti Gutty líka golfíþróttinni.  Gutty var nýr golfbolti búinn til úr gutta percha efni, hann var ódýrari og hentaði betur til fjöldaframleiðslu, hann entist betur og gæðin voru betri en fjaðurfylltu leðurboltarnir sem notaðir voru áður. Frá Skotlandi breiddist golfíþróttin út til Bretlandseyja.  Árið 1864 varð Westward Ho! fyrsti nýi golfvöllur í Englandi síðan spilað var á Blackheath (þar spilaði breska konungshirðin golf).

Árið 1880 voru 12 golfvellir á Englandi. Sjö árum síðar, 1887 voru komnir 50 og 1914 yfir 1000. Golfleikurinn á Englandi breiddist nógu hratt út að 1890, vann John Ball fyrsta Opna breska.  Golfleikurinn breiddist líka út um allt breska konungsveldið.  Það er engin tilviljun að rík hefð sé fyrir golfleik á Írlandi, í Bandaríkjunum, Ástralíu, Suður-Afríku, Nýja-Sjálandi, Kanada, Singapore allt lönd sem lutu Bretum eða byggð voru breskum innflytjendum. Eins voru byggðir golfvellir víðsvegar um Evrópu til þess að koma til móts við breska ferðamenn.  Á morgun hefst sem sagt kynning á 19. aldar kylfingum hér á Golf 1 og verður byrjað og Tom Morris feðgum.