Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 12. 2014 | 09:00

Ný golfstjarna framtíðarinnar: Pedro Ochoa?

Mexíkönsku golfdrottningunni Lorenu Ochoa finnst enn gaman á æfingasvæðinu – en nú eru æfingarnar aðeins öðruvísi.

Í dag nýtur hún þess að horfa á son sinn, Pedro slá bolta á æfingarsvæði golfvallarins sem fylgir landareign hennar, nálægt Mexikó City.

Í næsta mánuði verður Pedro 3 ára.

Lorena veit sem er að syni hennar finnst fátt skemmtilegra en að keyra með henni í golfbílnum að æfingasvæðinu….

Og svo finnst honum líka gaman að gefa öndunum brauð.

„Við erum með rútínu“ sagði Lorena.  „Við förum á leikvöllinn eftir forskólann og síðan á æfingasvæðið.  Honum finnst gaman að slá bolta.  Hann slær bara svona 10 bolta og þá segir hann „OK, ég er búinn, förum.“

Síðan fer Lorena með honum og systur Pedro, Juliu að tjörninni til þess að gefa öndunum brauð.

„Mér finnst ekkert gaman að æfa í dag,“ sagði Lorena.  „Ég spila ekkert það mikið.“

Nú í þessari viku fer hins vegar LPGA-mótið Lorena Ochoa Invitational fram í 7. sinn og þá vaknar alltaf sömu spurningarnar hvort Lorena muni snúa aftur til kepppnisgolfsins?

En Lorena segir að það sé ekkert að fara að gerast því hún nýtur líf síns sem móðir of mikið.  Hún hætti í keppnisgolfi fyrir 4 árum, 28 ára, sem nr. 1 á Rolex-heimslistanum til þess að stofna fjölskyldu með eiginmanni sínum  Andres Conesa Labastida, forseta Aeromexico. Hún segist ekki sjá eftir að hafa hætt í golfi eina mínútu.