Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 2. 2013 | 18:00

NY Choi leiðir þegar Opna breska er hálfnað

Það er Na Yeon (stytt í NY) Choi frá Suður-Kóreu, sem leiðir þegar Opna breska kvenrisamótið er hálfnað.

NY Choi er búin að spila frábært , stöðugt golf á St. Andrews; er efst eftir 2. hringi Opna breska á samtals 10 undir pari, 134 höggum (67 67).

Landa hennar sem er að reyna við Grand Slam, Inbee Park, átti annan slæman hring í dag upp á 1 yfir pari 73 högg og er samtals búin að spila á 2 undir pari, 142 höggum (69 73).  Hún þarf virkilega að töfra fram ótrúlega 2 hringi um helgina til þess að eiga séns á 4 risamóta Grand Slam-inu, en sem stendur er hún heilum 8 höggum á eftir NY Choi!

Í 2. sæti 1 höggi á eftir NY Choi er Miki  Saiki frá Japan, á samtals 9 undir pari, 135 höggum (69 66).

Nýliðinn Camilla Lennarth sem leiddi eftir 1. hring ásamt Morgan Pressel frá Bandaríkjunum, virðist hafa farið á taugum á 2. hring eða a.m.k. ekki þolað álagið af að deila 1. sætinu en hún átti afleitan hring í dag upp á 10 yfir pari 82 högg og nokkuð ljóst að hún kemst ekki í gegnum niðurskurð á samtals 4 yfir pari en niðurskurðarlínan er sem stendur miðuð við samtals skor upp á 1 yfir pari.

Meðal þeirra sem líka komast ekki í gegnum niðurskurð ef framangreint verður raunin (þ.e. niðurskurður miðaður við 1 yfir par) eru Yani Tseng og Belen Mozo, en báðar eru á samtals 2 yfir pari, en sú sem rétt kemst í gegn er áhugamaðurinn ný-sjálenski Lydia Ko!!!! Glæsilegt hjá Ko en hún rétt sleppur í gegn á samtals 1 yfir pari!

Nokkrar eiga eftir að ljúka leik á 2. hring þegar þetta er ritað, en fátt sem virðist ætla að koma í veg fyrir ofangreint.

Til þess að sjá stöðuna á Opna breska þegar kvenrisamótið er hálfnað SMELLIÐ HÉR: