Ólafur Björn Loftsson. Mynd: Í einkaeigu
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 11. 2015 | 08:30

Nordic Golf League: Ólafur Björn lauk keppni T-44 í lokaúrtökumótinu

Ólafur Björn Loftsson, GKG lauk keppni á lokaúrtökumóti Nordic Golf League á Skjoldenæshom golfvellinuml T-44, þ.e. deildi 44. sætinu eftir að hafa hrapað niður skortöfluna um 29 sæti eftir fremur óvenjulegan hring fyrir hann upp á 75 högg.

Ólafur Björn lék á samtals 217 höggum (71 71 75).

Um þátttöku sína í lokaúrtökumóti NGL sagði Ólafur Björn eftirfarandi:

Búinn að tryggja mér fullan þátttökurétt á Nordic League á næsta ári með því að enda jafn í 44. sæti í lokaúrtökumótinu í Danmörku. Það er mikill léttir því ég hef verið í vandræðum með minn leik að undanförnu. Ég leysti vel úr stöðunni í vikunni, barðist eins og ljón og komst þægilega í gegnum niðurskurðinn í mótinu sem var mikilvægt. Það var einnig algjör snilld að Axel Bóasson spilaði sig inn á mótaröðina með glæsilegri spilamennsku síðustu daga. Það mun hjálpa okkur mikið og verður mjög gaman að berjast saman í þessu á næsta ári.
Ég er búinn að glíma við ýmsa hluti síðustu misseri og það hefur tekið mikið á að ná ekki að sýna sitt rétta andlit þegar mikið er í húfi. Keppnistímabilinu er nú lokið í ár og nú verður allt lagt undir í að laga þá þætti sem eru að valda mér erfiðleikum. Ég hef aldrei misst trúna og hlakka mikið til að bæta mig og búa mig undir frábært tímabil á næsta ári á Nordic League. Takk fyrir allan stuðninginn!“

Til þess að sjá lokastöðuna á lokaúrtökumóti NGL SMELLIÐ HÉR: