Phil Mickelson
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 11. 2013 | 17:30

PGA: Nokkur stór nöfn sem ekki náðu niðurskurði á The Players 2013

Þegar maður skoðar skortöfluna rekur mann í rogastans yfir nokkrum af þeim stórstjörnum sem ekki komust í gegnum niðurskurð á The Players og þetta sýnir manni enn og aftur hversu hverful lukkan er í golfleiknum; einn daginn er viðkomandi hampað sem einum af betri kylfingum heims og fjölmiðlar halda ekki vatni yfir glæsiframmistöðu viðkomandi og þann næsta nær viðkomandi kylfingur ekki niðurskurði.  Þá er bara andvarpað og sagt: „Þetta er golf!“

Hér fara nokkur af stóru nöfnunum sem ekki komust í gegnum niðurskurð á The Players 2013:

1 Phil Mickelson – hann fékk skolla á tveimur af síðustu þremur holum sínum;  par-4 7. holuna og par-5 9. holuna og munaði aðeins 1 höggi að hann kæmist í gegnum niðurskurð. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2000, eða í 13 ár að Phil Mickelson nær ekki niðurskurði á The Players.

En öðrum stórum nöfnum golfsins gekk ekkert betur:

Vijay Singh fékk skolla á 35. holu sína, par-3, 8. holuna og hefir nú ekki komist í gegnum niðurskurð í 5 af síðustu 6 mótum, sem hann hefir tekið þátt í.

Rickie Fowler  náði aðeins 4 fuglum á 2 dögum og engum á seinni 9 á seinni hring sínum, þar sem hann var á 4 yfir pari. Hann hefir ekki komist í gegnum niðurskurð á The Players í 3 af 4 mótum, sem hann hefir tekið þátt í.

Jim Furyk komst ekki í gegnum niðurskurð 2. árið í röð, en þetta er enn einn „heimamaðurinn“ sem ekki hefir gengið vel á heimavelli. Á 2. hring var Furyk með 17 pör og 1 skolla og hann var aðeins með 1 fugl á síðustu 25 spiluðum holum sínum í mótinu.

Robert Garrigus fékk skolla á síðustu 2 holurnar á 2. hring, 8. og 9. holur TPC Sawgrass. Á 2 dögum tókst sleggjunni Garrigus ekki nema að ná pari á öllum par-5 holum vallarins.

Jason Kokrak spilaði fyrstu 17 holurnar í mótinu á 4 undir pari en seinni 19 holurnar á 5 yfir pari.

• Nýliðinn Russell Henley og Nicholas Thompson (bróðir Lexi) náðu aðeins að bakka upp glæsibyrjun upp á 69 högg með 76 höggum á seinni hring og misstu báðir af niðurskurði með 1 höggi.

Meðal þeirra sem ekki komust í gegnum niðurskurð og voru á samtals 2 yfir pari, 146 höggum:

Justin Rose, sem er nr. 4 á heimslistanum virðist ekkert kunna vel við sig á TPC Sawgrass. Eftir hringi upp á 72-74 hefir hann ekki komist í gegnum niðurskurð í 5 af síðustu 10 The Players mótum sem hann hefir tekið þátt í.

Ian Poulter komst ekki í gegnum niðurskurð á The Players 2. árið í röð.

Nick Watney var á 76-70 og komst heldur ekki í gegnum niðurskurðog það sama er að segja um Graeme McDowell.

Ernie Els (73-73) komst ekki í gegnum niðurskurð á The Players 4. árið í röð.

Aðrir sem ekki komust í gegnum niðurskurð:

• Þrautagöngu Lucas Glover (73-76) er fram haldið á The Players. Hann hefir ekki komist í gegnum niðurskurð í 6 af 8 mótum sínum og hefir aðeins náð að brjóta 70 þrisvar sinnum á 20 hringjum í mótinu.

Scott Stallings var á 5 undir pari á fyrstu 10 holunum en 9 yfir pari á næstu 26 holunum. Hann lék par-5 brautirnar á 3 yfir pari!

Bill Haas hefir ekki náð niðurskurði í 4 af 7 Players mótum sem hann hefir tekið þátt í.

• Og svo er það David Toms. Svo virtist sem hann væri búinn að ná Sawgrass eftir  að hafa orðið T-10, í 2. sæti og  T-9 á síðustu 3 árum, en í ár var skorið upp á 79-70 og hann er nú búinn að missa af niðurskurði í 11 af  21 skipti sem hann hefir tekið þátt í The Players.

Keegan Bradley náði ekki niðurskurði 2. mótið í röð.

• Það sem var þó e.t.v. sárgrætilegast var að Billy Horschel skyldi ekki komast í gegnum niðurskurð.  Billy er „heimamaður.“ Borinn og barnfæddur í Flórída og þekkir Sawgrass eins og rassvasann á sér. Hann spilaði á háskólaárum sínum með University of Florida þ.e. var í Florida Gator liðinu og átti stóran stuðningsmannahóp á TPC Sawgrass. Fyrir mótið var hann sá leikmaður sem náð hafði niðurskurði oftast af félögum sínum á PGA Tour eða 23 sinnum í röð.  Nú á Jimmy Walker metið; hann hefir komist í gegnum niðurskurð 22 sinnum.