Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 19. 2014 | 07:00

NK: Nökkvi á besta skorinu á Opna Þjóðhátíðardagsmótinu

Opna Þjóðhátíðardagsmótið fór fram í öllum útgáfum af veðri á Nesvellinum 17 júní.  Rjómablíða fylgdi fyrstu ráshópunum af stað um morguninn, en svo tók að blása töluvert úr suðri án allrar úrkomu þó. Eftir hádegið lægði svo aftur og við tók rigning með hellidembum inn á milli og komu síðustu kylfingarnir ansi blautir í hús að leik loknum.  Það voru hundrað og fjórir kylfingar tóku þátt í mótinu og komust færri að en vildu enda mótið ávallt eitt það vinsælasta á Nesvellinum á ári hverju og mjög góð verðlaun í boði frá ICELANDAIR. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í höggleik og punktakeppni ásamt nándarverðlaun á par 3 brautum og fyrir að vera næst holu í tveimur höggum á 8./17. braut.  Í punktakeppninni sigraði Magnús Margeirsson en hann fékk m.a. tvo fugla á hringnum, lék á 86 höggum og endaði með 43 punkta.  Í höggleiknum tryggði Nökkvi Gunnarsson sér sigur með því að leika á 69 höggum þar sem hann endaði síðustu tvær brautirnar með fugli á 17. braut og svo glæsilegum erni á þeirri síðustu.  Helstu úrslit urðu annars eftirfarandi:

Höggleikur:

1. sæti – Nökkvi Gunnarsson, NK – 69 högg
2. sæti – Ólafur Björn Loftsson, NK – 70 högg
3. sæti – Ragnar Már Garðarsson, GKG – 72 högg

Punktakeppni:

1. sæti – Magnús Margeirsson, NK – 43 punktar
2. sæti – Gunnar Gíslason, NK – 40 punktar
3. sæti – Helga Kristín Einarsdóttir, NK – 39 punktar

Nándarverðlaun:

2./11. braut: Guðmundur Þóroddsson – 1,12 metra frá holu
5./14. braut: Eiður Ísak Broddason – 1,87 metra frá holu
8./17. braut: Óskar Dagur Hauksson – 0,48 metra frá holu