Þórður Rafn Gissurarson, GR. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2012 | 20:30

NGA: Strákarnir komust ekki í gegnum niðurskurð í Flórída

Þórður Rafn Gissurarson, GR, Alexander Aron Gylfason, GR og Nökkvi Gunnarsson, NK komust ekki í gegnum niðurskurð á 1. mótinu sem þeir tóku þátt í á NGA Pro Tour – Bridgestone Winter Series, sem fer fram í Metro West Golf Club, í Flórída.

Þórður Rafn lék á samtals 6 yfir pari, 150 höggum (76 74) bætti sig um 2 högg frá því í gær.  Hann fór líka upp um 4 sæti úr 49. sæti í 45. sætið og stóð sig best íslensku þátttakendanna.

Aðeins 27 efstu og þeir sem voru jafnir í 27. sætinu komust í gegnum niðurskurð, sem miðaður var við samtals 2 yfir pari og munaði því samtals 4 höggum að Þórður Rafn kæmist í gegn.

Hinir tveir Íslendingarnir spiluðu líka mun betur á seinni hringnum í dag.  Alexander Aron bætti sig um 7 högg milli hringja spilaði á 80 höggum í gær en var á frábærum 73 í dag. Hann lauk keppni jafn öðrum í 56. sæti.

Sá sem bætti sig mest var Nökkvi Gunnarsson, NK. Hann var í neðsta sætinu í gær á samtals 11 yfir pari, 83 höggum en sýndi sitt rétta andlit í dag og spilaði á 72 höggum þ.e. parinu í dag! Bætti sig um 11 högg, sem dugði til þess að koma honum úr neðsta sætinu, 81. sætinu í 66. sætið eða upp um heil 15 sæti.

Á facebook síðu Nökkva sagði hann nú fyrir skemmstu um hring sinn í dag: „ Kominn heim til Dunedin. Erfiðari aðstæður í dag en í gær eins og sést á heildarskorinu. Nokkuð sáttur með hringinn í dag, sýnir að maður á heima þarna. Skipti um pútter fyrir hringinn, fór í belly-inn og var snöggtum skárri. Svekkjandi að hafa týnt hausnum í gær, það hefði verið nóg að spila sitt eðlilega golf til að fara áfram. En svona er nú það :-). Þetta fer í reynslubankann. Nú er bara að byggja á þessu.“

Golf 1 óskar Nökkva, Alexander Aron og Þórði Rafni góðs gengis í næstu viku þegar spilað verður í Stoneybrook Golf Club í Flórída!

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag í Metro West Golf Club í Flórída SMELLIÐ HÉR: