Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 12. 2012 | 09:30

NGA: Ólafur Lofts á 69 og Alexander Gylfa á 73 höggum eftir 1. dag í Disney – Lake Buena Vista mótinu

Ólafur Björn Loftsson, NK og Alexander Gylfason, GR taka þátt í 7. móti NGA Pro Golf Tour – Bridgestone Winter Series.  Að þessu sinni er spilað í Disney – Lake Buena Vista, í Flórída. Mótið hófst í gær en það stendur 11.-13. desember.  Þátttakendur eru 113 og aðeins 40 fara í gegnum niðurskurð og fá að spila 3. og síðasta hring mótsins til fjár. Fyrsti hringurinn var spilaður í gær.

Ólafur Björn lék á 3 undir pari, 69 höggum, fékk 1 glæsiörn, 4 fugla, 10 pör og 3 skolla.  Hann deilir sem stendur 28. sætinu og með góðum hring í dag ætti hann að komast í gegnum niðurskurð.

Alexander Gylfason spilar á NGA Golf Pro Tour í Flórída. Mynd: Í eigu Alexanders

Alexander  spilaði á 1 yfir pari, 73 höggum. Hann fékk 4 fugla, 10 pör, 3 skolla og 1 skramba.  Hann er aðeins 3 höggum frá því að komast í gegnum niðurskurð, sem ætti að takast með góðum hring í dag!

Golf1 óskar þeim Alexander og Ólafi Birni góðs gengis í dag!!!

Til þess að sjá stöðuna á Disney – Lake Buena Vista mótinu SMELLIÐ HÉR: