Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 1. 2012 | 13:00

Námskeið og próf fyrir golfdómara

Fyrirhuguð námskeið og próf fyrir golfdómara

Dómaranefnd GSÍ hefur lokið við að skipuleggja kennslu í golfreglum fyrir komandi golftímabil. Munu námskeiðin hefjast nú í mars og þau síðustu verða fyrir lok apríl. Nánar tiltekið þá er um eftirfarandi námskeið að ræða.

 

Endurmenntunarnámskeið:

Nú um áramótin tóku gildi nýjar og breyttar golfreglur. Um leið féllu öll dómaraskírteini úr gildi, þannig að allir þeir sem eru með dómaraskírteini, hvort heldur er héraðs- eða landsdómaraskírteini þurfa að sækja endurmenntunarnámskeið til þess að fá dómaraskírteinin endurnýjuð til næstu 4ra ára. Ákveðið hefur verið að keyra endurmenntunarnámskeið þrisvar og verða þau sem hér segir:

 

Mánudaginn 12. mars, kl. 19:30 – 22:00

Þriðjudaginn 20. mars kl. 19:30 – 22:00

Laugardaginn 31. mars kl. 10:00 – 12:30

 

Nóg er að dómarar sæki eitt af þessum námskeiðum þar sem farið verður í þær breytingar sem urðu á golfreglunum nú um áramótin. Ekkert próf er í lok þessara endurmenntunarnámskeiða.

 

Héraðsdómaranámskeið:

Dómaranefnd GSÍ hefur ákveðið að breyta fyrirkomulagi á héraðsdómaranámskeiðunum. Fyrirkomulag námskeiðanna í ár verður þannig að haldnir verða fjórir 3ja tíma fyrirlestrar þar sem farið verður í gegnum ákveðnar reglur í hverjum fyrirlestri. Þegar fyrirlestraröðinni er lokið verður haldið próf og verður það haldið tvisvar. Fyrirlestrarnir verða sem hér segir:

 

Mánudaginn 26. mars, kl. 19:00 – 22:00

Fimmtudaginn 29. mars kl. 19:00 – 22:00

Þriðjudaginn 3. apríl kl. 19:00 – 22:00

Miðvikudaginn 11. apríl kl. 19:00 – 22:00

Nánar um það hvaða yfir hvaða reglur verður farið í hverjum fyrirlestri verður auglýst síðar.

 

Prófin verða haldin sem hér segir:

 

Laugardaginn 14. apríl kl. 9:30 – 12:00

Þriðjudaginn 24. apríl kl. 19:30 – 22:00

Á undan prófunum verður stuttur fyrirlestur um störf dómara og almennur fyrirspurnatími, en reiknað er með að prófið sjálft taki klukkutíma.

 

Stefnt er að því að taka upp alla fyrirlestrana þannig að þeir verði aðgengilegir á golf.is fyrir þá sem ekki komast á fyrirlestrana sjálfa.

 

Landsdómarapróf:

Dómaranefnd GSÍ hefur ákveðið að landsdómarapróf verði haldið laugardaginn 21. apríl kl. 10:00 – 16:00. Fyrir hádegi verður farið yfir þá helstu úrskurði sem breyst hafa í tengslum við nýjar golfreglur, en eftir hádegið verður síðan prófið sjálft.

 

Þátttökutilkynningar:

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í einhverjum þessara námskeiða skulu tilkynna sig til skrifstofu GSÍ sem fyrst (gsi@golf.is). Eftir þátttökutilkynningu verða sendar leiðbeiningar til þeirra sem tilkynna sig varðandi undirbúning fyrir námskeiðið.

Heimild: golf.is