Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2014 | 13:00

Myndskeið: Albatross í golfi – jafn sjaldséður og samnefndur fugl

Það heyrir til undantekninga að tveir albatrossar náist í mótum stærstu mótaraða heims á sama deginum – annar á Hawaii á PGA Tour og hinn í Durban, Suður-Afríku.

Það var Hollendingurinn Joost Luiten sem náði þessum líka glæsilega albatross í gær, eins og Golf 1 greindi nær samstundis frá eftir að Luiten sló höggið góða Sjá með því að SMELLA HÉR:

Albatross Luiten kom á par-5, 10. holu Durban CC.

Á hinum enda heimsins innan við sólarhring frá því albatross Luiten leit dagsins ljós náði „Gangnam Style-arinn“ James Hahn sama afreki á par-5 9. holunni á 2. hring Sony Open á PGA Tour, á Waialea CC í Honolulu á Hawaii. Sjá með því að SMELLA HÉR: 

En ….. albatross hvað er það? Sjaldgæfur fugl? Eða var það ekki einhver golfvöruverslun hér á landi, sem ekki er starfandi lengur?

Nei, hér er ekki ætlunin að fjalla um fugla eða golfbúðir, heldur það merkilega afrek í golfi að fá albatross.

Skv. golf-alfræðiorðabók Dr. Ingimars merkir albatross „að leika holu á þremur höggum undir pari.“

Ennfremur segir: „Slíkt er aðeins mögulegt á brautum, sem eru par-4 eða par-5. Albatross er afar sjaldséður í golfi, rétt eins og samnefndur fugl.  Árið 1975 lék Bandaríkjamaðurinn John Eakin 15. holuna á Mahaka Inn West vellinum, sem var 548 m löng, á tveimur höggum.  Í Bandaríkjunum eru einnig notuð hugtökin double eagle og golden eagle yfir albatross.“

Til er mun betra dæmi en það sem Dr. Ingimar nefnir.

Ásta Birna Magnúsdóttir, afrekskylfingur úr GK, fékk nefnilega albatross á 3. braut á Hvaleyrinni, í  Siggu&Timo móti, 25. ágúst 2007. Ásta lék af rauðum teigum en brautin sem er par-4, er 205 m löng þaðan. Jafnframt því að fá albatross fór Ásta Birna því að sjálfsögðu einnig holu í höggi, sem ævinlega gerist þegar albatross næst á par-4 braut.  Það er einungis á par-5 braut sem hægt er að ná hreinum albatross, því sem Bandaríkjamenn nefna „golden eagle.“ Ásta Birna er líklega ein fárra íslenskra kvenna ef ekki Íslendinga, sem fengið hafa albatross. Hún býr í Þýskalandi þar sem hún var við nám í sjúkraþjálfun! Það má loks fylgja með hér að Ásta Birna var á besta skorinu í Siggu&Timo mótinu 2007,  á 76 höggum – 36 höggum í hrauninu (fyrri 9) og 40 höggum á Hvaleyrinni (seinni 9).

Þess mætti geta fyrir þá sem spila af rauðum teigum og vilja feta í fótspor Ástu Birnu og reyna að fá albatross, að 8. braut á Reykholtsdalsvelli hjá golfklúbbnum Skriflu hjá Reykholti í Borgarnesi, er ákjósanleg braut til þess að reyna við albatrossinn.  Áttunda brautin er par-4 og aðeins 137 m löng af rauðum teigum.

Aðrir íslenskir kylfingar sem vitað er um að hafi fengið albatross í móti eru m.a. Þorsteinn (Steini) Hallgrímsson, GO en hann fékk albatross, þann fyrsta á ferlinum, þegar hann spilaði par-5 12. holuna á Grafarholtsvelli á 2 höggum í „eiginn móti“ þ.e. Opna Hole in One mótinu s.l. haust (2013).  Einar Gestur Jónasson, GOB,  fékk albatross á par-5 2. braut Gufudalsvallar í Opna Kjörísmótinu í ágúst 2013.

Erlendir kylfingar sem fengið hafa albatrossa eru m.a. Nick Watney en hann var árið 2012 aðeins 1 af 3 til þess að fá albatross í Opna bandaríska risamótinu, allt frá upphafi mótsins.  Nýliði á PGA Tour 2013, Luke List, fékk albatross í ársbyrjun 2013.

Annars er í þessu sambandi gott að styðjast við lista wikipedia yfir atvinnumenn í golfi sem fengið hafa albatross. Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Sjaldgæft er að albatrossar séu festir á filmu. Það gerist bara í stórmótum og má sjá 7 nýleg dæmi um albatrossa, sem stórstjörnur PGA og Evróputúrsins hafa fengið. Smellið á nafn viðkomandi kylfings, til þess að sjá myndskeið frá mótunum þegar þeir urðu svo heppnir að fá albatross:

LOUIS OOSTHUIZEN Á THE MASTERS 2012

CAMILLO VILLEGAS

HUNTER MAHAN og PETER LONARD (2 ALBATROSSAR Í SAMA MÓTI)

JEFF OVERTON

JOHN SENDEN

RAFA ENCHENIQUE

Ofangreind grein greinarhöfundar hefir áður birtst með góðfúslegu leyfi hennar á iGolf.is 9. september 2010, en birtist hér uppfærð og að nokkru breytt