Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 8. 2011 | 10:12

Myndasería og úrslit: Horft tilbaka yfir íslenska golfsumarið 2011 – Opna Galvin Green mótið hjá GR 19. júní 2011

Opna Galvin Green kvennamótið fór fram á Grafarholtsvelli, hjá Golfklúbbi Reykjavíkur á kvenfrelsisdaginn, sunnudaginn 19. júní í sumar. Veðrið var frábært, sólin skein og hitinn náði allt upp undir 20°C. Þetta var einn fyrsti, alvörusólskinsdagur sumarsins 2011 og konur léttar í lund eftir því.

Eftir sem áður kom upp kærumál, en kært var vegna þess að verið var að slá brautir meðan mótið fór fram. Málið fór í nefnd og var settlað.

Alls tóku 97 konur þátt í mótinu og 93 luku keppni. Veitt voru verðlaun fyrir 6 efstu sætin í punktakeppni og besta skor. Auk þess voru veitt nándarverðlaun á 6. og 17. braut, verðlaun fyrir að vera næst holu í 2. höggi á 10. braut og fyrir lengsta upphafshögg á 1. braut.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, átti besta skor dagsins, eða 72 högg, glæsilegt skor hjá einum besta kvenkylfingi landsins. Íris Ægisdóttir, GR var best í punktakeppni með 41 punkt og heimakonur, GR-ingar,  því sigursælar, hvort heldur í höggleik eða punktakeppni.

Úrslitin í punktakeppni með forgjöf voru eftirfarandi:
1. Íris Ægisdóttir, GR, 41 punktur.
2. Juliette Marjorie Marion, GR, 40 punktar.
3. Svanhvít Helga Hammer, GG, 40 punktar.
4. Helga Björg Steingrímsdóttir, GKG, 38 punktar.
5. Valgerður Bjarnadóttir, GK, 38 punktar.
6. Jóhanna Ingólfsdóttir, GR, 38 punktar

Besta skor: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, 72 högg.

Nándarverðlaun:
6.braut: Ólöf Baldursdóttir, GK, 3,75 m.
17.braut: Ragnheiður H. Gústafsdóttir, GR, 2,29

Næst holu í 2. höggi á 10.braut: Aldís Arnardóttir GO 4,38 m.

Lengsta upphafshögg á 1.braut: Auður Kjartansdóttir GMS.

Hér má sjá myndaseríu frá verðlaunaafhendingunni: OPNA GALVIN GREEN 2011