Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 21. 2019 | 18:00

Mótaröð þeirra bestu (4): Ragnhildur og Axel sigruðu

KPMG-mótið hófst föstudaginn 19. júlí en það er jafnframt fjórða mótið á Mótaröð þeirra bestu á þessu tímabili. Keppt er um Hvaleyrarbikarinn hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði.

Axel Bóasson, GK og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR fögnuðu sigri. Þetta er í annað sinn sem Axel sigrar í Hvaleyrarbikarnum en í fyrsta sinn sem Ragnhildur vinnur þetta mót.

Axel Bóasson úr GK landaði yfirburðasigri, á -12 samtals, og var hann 10 höggum á undan þremur kylfingum sem enduðu jafnir í 2. sæti.Axel lék hringina þrjá á 66-68-66 höggum.

Ragnhildur sigraði með minnsta mun en Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, varð önnur. Ragnhildur var með fjögurra högga forskot fyrir lokaholuna, sem hún lék á +3 eða 7 höggum. Guðrún Brá náði ekki að jafna við Ragnhildi með parpúttinu sem hefði dugað til að komast í bráðabana um sigurinn.