Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2013 | 11:45

Moe Norman – kylfingurinn sem 3 sinnum spilaði hring upp á 59 högg (2/8)

Icelandair býður nú upp á tvo nýja áfangastaði í Kanada; Edmonton og Vancouver og býðst íslenskum kylfingum nú frábært tækifæri að spila frábæra golfvelli í kringum þær borgir sem telja eitthvað á 2. hundrað en golfvellir í Kanada eru hátt í 2000.   Í tengslum við þessar kynningar er ætlunin að kynna einn helsta son Kanada golflega séð; kylfing sem þó svo margir kannast ekkert við. Hér fer 2. hlutinn af 8 greinum um Moe Norman (áður birt hér á Golf 1 – aðeins á facebook 2011):

Kanadíski kylfingurinn Murray Irwin Norman alltaf kallaður Moe var e.t.v. einn besti kylfingur heims á sínum tíma, m.a. í að slá bein högg. En hann var líka einn fárra til að spila hring upp á 59 högg. Tókst það í þrígang. Já, Moe á mörg met, sem fáir vita um, utan Kanada.

Þegar Moe var 5 ára lenti hann í bílslysi og var talið að hann hefði orðið fyrir heilaskaða og varð hann aldrei samur eftir. Hann hélt sig út af fyrir sig, var einfari, sérvitur og mörgum fannst hann hreint og beint skrítinn. Eitt er víst að hann var kylfingur af lífi og sál.

Fimm dögum fyrir andlát Moe, 4. september 2004 tók Golf Digest langt viðtal við Moe. Hér kemur 2. hluti þessa langa viðtals við Moe. Hinir 6 hlutarnir birtast á næstu dögum.

Gefum Moe orðið:

Ég heiti Murray.  Þegar ég byrjaði sem kaddý fór einn strákurinn að kalla mig Moe. Reyndar kallaði hann mig „Moe the Schmoe, the Pinochle Pro.“ Þetta náði engri átt en festist við mig.

Ég er góður í því að halda golfbolta á lofti með kylfu. Dag einn ásakaði einn náunginn mig um að vera að monta mig og síðan vildi hann veðja við mig.  Hann sagði að hann myndi láta mig fá 1 dollar fyrir hvert skipti sem mér tækist að halda boltanum á lofti oftar en 100 skipti.  Ég náði að halda honum vel yfir 100 sinnum á lofti (þ.e eftir fyrstu 100 skiptin) og andlit náungans varð hvítt eins og lak. Ég fékk hláturkrampa þannig að ég hætti bara þegar ég náði 192 (þ.e. Moe var búinn að halda boltanum á lofti 292 skipti). Ég hafði það bara ekki í mér að hafa af honum meira en það.

Ég hef slegið svo marga bolta að ég fæ sigg í vinstri hendi. Það verður svo þykkt að ég verð að taka skæri til þess að klippa það í burtu. Brúnin á sigginu er svo skörp – að ef ég drægi hana eftir andlitinu á þér myndi ég rispa þig til blóðs.

Talandi um sigg, fyrsta skiptið sem ég sá Ben Hogan var á Carling World Open í Oakland Hills. Hann var á æfingasvæðinu og allir keppendur söfnuðust saman til þess að horfa á hann. Hogan tók ekki eftir neinu af því að hann var að einbeita sér, en þegar hann leit upp en eftir að hann lauk æfingunni leit hann upp og sá alla strákana vera að horfa á sig.  Þegar hann er að ganga í burtu sagði hann: „Ég sé af hverju þig eruð ekkert góðir – þið eruð allir með sigg á afturendanum.”

Ég spilaði hring upp á 59 högg þrisvar sinnum. Besti hringurinn var þegar ég var að spila við Gary Cowan, fyrrum US Amateur Champion á Rockway golfvellinum [í Ontarío] árið 1957. Ég gæti hafa verið á betra skori hefði ég ekki þrípúttað á 10. holu. Reyndar var ég alls ekki að pútta vel þennan dag. Ég náði bara að slá boltann nálægt holu, það var allt og sumt.

Ég lærði að pútta fyrir skemmstu og nú pútta ég svo vel að þið mynduð gráta. Það er besti partur leiks míns og það segir mikið.

Æska mín var mjög erfið. Við vorum fátæk. Ég og bræður mínir notuðum hárspennur til þess að halda buxunum upp um okkur og við límdum skóna okkar til þess að halda þeim saman. Pabbi var mjög strangur. Þegar mér tókst að skrapa saman fyrir golfsetti vildi hann ekki leyfa mér að geyma það heima. Ef hann hefði komist yfir það hefði hann hent því út, þannig að ég faldi það undir veröndinni, renndi því í gegnum lítið gat þar sem hann náði ekki til þess því hann var feitur.  Hann var ánægður þegar hann fór að sjá nafnið mitt í dagblöðunum, en hann kom aldrei til þess að sjá mig slá bolta, jafnvel ekki í heimabæ okkar eftir að ég varð frægur.