Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 12. 2013 | 11:30

Mickelson ekki á æfingu af fjölskylduástæðum

Phil Mickelson var ekki í Merion Golf Club í gær að undirbúa sig fyrir U.S. Open risamótið, sem hefst á morgun vegna þess að hann fór heim til San Diego, í Kaliforníu til þess að vera viðstaddur útskrift dóttur sinnar Amöndu úr 8. bekk.

Mickelson, sem á 43 ára afmæli n.k. sunnudag var í Merion fyrir tveimur vikum, tveimur dögum áður en hann tók þátt í FedEx St Jude Classic í Memphis, þar sem hann var alla síðustu 3 hringina á skori upp á 60 og eitthvað og lauk keppni jafn öðrum í 2. sæti, 2 höggum á eftir sigurvegaranum Harris English. 

Mickelson kom til Merion á mánudag en fékk ekki að æfa sig mikið þá vegna veðurs, sem olli því að fulltrúar bandaríska golfsambandsins létu loka vellinum.

Mickelson sagði í fréttatilkynningu í gær að hann hefði alltaf ætlað að vera við útskrift dóttur sinnar. Vegna þess hversu slæmt veðrið var hefði hann farið aðeins fyrr.

„Ég ætlaði heim til San Diego eftir blaðamannafund minn kl. 2:30 á þriðjudag. En ég fór heim á mánudag,“ segir m.a. í fréttatilkynningunni. „Dóttir mín, Amanda, á að halda ræðu við útskrift sína úr 8. bekk og ég ætlaði alltaf að vera viðstaddur og þar sem rigndi svo mikið á mánudaginn og við vissum ekki hvort við gætum spilað völlum, fór ég degi fyrr til að æfa mig í frábæru veðri á æfingasvæðinu mínu og púttflöt. Ég verð tilbúinn á fimmtudaginn (á morgun).“

Útskrift dótturinnar er eftir hádegið í dag, miðvikudag og Mickelson ætlar að fljúga aftur til Merion núna í kvöld. Hann fer síðan út kl. 7:11 á morgun af 11. teig ásamt Steve Stricker og Keegan Bradley.

Mickelson á met upp á að hafa 5 sinnum lent í 2. sæti á Opna bandaríska … hann vantar ekkert nema sigur í mótinu!