Ragnheiður Jónsdóttir | september. 3. 2013 | 20:00

Michael Phelps tekur þátt í Pro-Am fyrir Omega European Masters mótið

Ólympíu-sundstjarnan Michael Phelps er paraður með Richie Ramsay í Pro-Am mótinu á morgun fyrir Omega European Masters mótið, sem er mót vikunnar á Evróputúrnum og fer fram í Crans-Sur-Sierre golfklúbbnum í Crans Montana, Sviss. Mótið hefst n.k. fimmtudag.

Phelps mun þannig spila golf í fyrsta sinn í Sviss, en hann er sérstakur „sendiherra“ fyrir Omega.

Ramsay á titil að verja í mótinu.

Phelps keppti á Alfred Dunhill Championship í fyrra (2012) og vinnan með golfkennaranum Hank Haney virtist vera að bera ávöxt þá þegar hann setti niður 50 metra pútt á 2. hring mótsins í Kingsbarns.

Phelps setti nýtt lengdarmet í púttum í Skotlandi en fyrra metið átti Sir Terry Wogan sem setti niður u.þ.b. 33 metra pútt á Gleneagles 1981.