Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 2. 2011 | 07:00

Michael Jordan verður ekki aðstoðarmaður Couples – John Cook kemur í hans stað

Verkalýðsmál innan NBA hindra að körfuboltastjarnan Michael Jordan fari til Ástralíu sem aðstoðarmaður Couples og bandaríska liðsins í Forsetabikarnum.

Fred Couples var með Jordan með sér í síðustu Forsetabikarskeppni í San Fransisco og var búinn að gera ráð fyrir honum sem aðstoðarmanni sínum 17.-20. nóvember n.k. í Royal Melbourne. Chicago Bulls stjarnan átti að gegna stöðu varafyrirliða ásamt Jay Haas.

Jordan á meirihlutann í Charlotte Bobcats og varð að hætta við þátttöku vegna verkbanns leikmanna NBA. Couples valdi John Cook til  þess að taka sæti Jordan.

John Cook

„Meðan þessi verkalýðsmál innan NBA eru óleyst þá fannst mér sem meirihluta eiganda Charlotte Bobcats nauðsynlegt að vera áfram í Bandaríkjunum,” sagði Jordan í fréttatilkynnningu.

Jordan hefir verið fastagestur í Ryder Cup og Forsetabikarnum í gegnum árin og situr oft í golfbíl með vindil og horfir á leikina. Hann var í heiðurshlutverki í San Francisco en sló í gegn meðal þátttakenda.

Michael Jordan fylgist vel með öllu sem gerist í golfinu

„Liðið mun sakna vináttu hans, íþróttaanda og forystu, en við skiljum svo sannarlega þá flóknu stöðu sem hann er í og skyldur hans gagnvart liði sínu,” sagði Couples.