Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 7. 2012 | 17:00

Mesta eftirsjá stórkylfinga (15. grein af 20): Pat Bradley

Frægðarhallarkylfingurinn Pat Bradley var umdeild sem fyrirliði bandaríska Solheim Cup liðsins árið 2000, þegar Annika Sörenstam setti niður vipp  í betri bolta og Bradley krafðist þess, s.s. frægt er að hún endurtæki höggið vegna þess að Annika hafði ekki rétt á að slá þ.e. bandaríska stúlkan var nær holu, en Annika tók af henni höggið. Skv. reglu 10-1-c fær sá sem spilar á undan þótt hann eigi ekki rétt á því ekki víti en andstæðingur getur krafist þess að viðkomandi spili höggið aftur og það var nákvæmlega það sem fyrirliðinn Pat Bradley lét hina stórhættulegu Anniku gera. Annika endurtók höggið og boltinn fór í þetta skiptið ekki ofan í holu og tapaði Annika þessum leik sínum. Ákvörðun Bradley var gagnrýnd sem óíþróttamannsleg. Annika Sörenstam var miður sín og í tárum eftir hringinn og litið á Bradley sem algert skrímsli.  Bandarísku stúlkurnar töpuðu hins vegar í Solheim Cup það ár. Skyldi Pat Bradley sjá eftir þessu í dag?

Gefum Pat orðið:

„Ég sé alls ekki eftir að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég var valin til að gegna ákveðnu starfi, leikmennirnir mínir þörfnuðust mín og ég valdi það að fara að leikreglum. Ég gat farið þaðan með höfuðið upprétt. Þetta var erfiður tími fullur vonbrigða en ég veit hvaða fólk studdi mig þá og ég er þeim ákaflega þakklát.

Þar sem ég hef 54 sinnum orðið í 2. sæti á LPGA Tour þá eru auðvitað mörg högg, sem ég vildi gjarnan fá að endurtaka (fá mulligan á). En ef ég horfi tilbaka yfir allan pakkann, þá er þau ekki svo mörg. Eitt sem ég sé eftir er að hafa spilað svona hrædd öll þessi ár. Það var erfitt fyrir mig að meðtaka andrúmsloftið á Túrnum og hljóta sjálfsöryggið,  sem ég þarfnaðist.  Ég dó þúsund sinnum þegar ég fór á 1. teig og það tók mikið úr mér. Þegar ég var búin að spila hringinn fór ég beint í búningsherbergið. Ég varð bara að standa utan kastljóss fjölmiðla. Ég spilaði út af hræðslunni að gera mistök en ekki vegna gleði góðs árangurs. Hræðslan minnkaði aldrei þannig að mér létti þegar ég gat dregið mig tilbaka og fór á eftirlaun. En nú þegar ég lít tilbaka vildi ég að ég gæti farið aftur í tímann og spilað með nýju hugarfari.

Ég er svo þakklát fyrir Legends Tour.  Hann (Legends Tour) hefir gefið mér 2. tækifæri að kynnast nokkrum ótrúlegum konum. Þær hafa tekið hlýtt á móti mér jafnvel þótt þær gætu hafa sagt: „Bradley, farðu til fjandans. Þú tókst ekki eftir mér þegar við spiluðum á (LPGA) túrnum, hvers vegna ætti ég að hafa fyrir því að kynnast þér núna?“  Ég kynntist þeim ekki vegna þess að ég átti í erfiðleikum með að opna mig fyrir fólki. Ég vildi ég hefði gert meira af því.“

Heimild: Golf Digest