Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 12. 2012 | 17:00

Mesta eftirsjá stórkylfinga (17. grein af 20): Nancy Lopez

Á fyrsta heila keppnistímabili sínu á LPGA mótaröðinni, árið 1978, þá 21 árs, vann Nancy Lopez 9 mót, þar af 5 mót í röð. Hún fylgdi þessu eftir með öðrum 8 sigrum árið 1979.  Alls vann hún 48 sinnum.

Skyldi sjálf Nancy Lopez sjá eftir einhverju?

Gefum henni orðið: „Að sigra aldrei á U.S. Women’s Open var hræðilegt. Ég var í 2. sæti 4 sinnum. Á fyrsta árinu, sem ég spilaði í mótinu [sem atvinnumaður] árið 1977, var ég í vandræðum með rennilásinn á buxunum mínum á sunnudeginum. Á þeim dögum vorum við með skyrturnar girtar ofan í buxurnar… okkur datt aldrei í hug að vera í skyrtunum yfir buxurnar – og buxurnar mínar voru með bilaðan rennilás. Í hvert sinn sem ég beygði mig til að pútta fannst mér eins og rennilásinn myndi opnast. Það var erfitt að einbeita sig, vegna þess að ég var svo hrædd um að buxurnar myndu hreinlega springa utan af mér.  Kostaði þetta mig sigurinn? Maður veit það aldrei. Ég spilaði vel, en ég var ekki að einbeita mér og á US Open verður maður að einbeita sér.

Það var erfitt að lesa flatirnar á Hazeltine og ég gat ekki beygt mig niður til þess að lesa þær almennilega. Ég myndi líklega hafa sett niður nokkur pútt í viðbót ef rennilásinn hefði ekki verið bilaður. [Lopez lauk keppni 2 höggum á eftir sigurvegaranum].  Ég var ung og fannst eins og ég ætti eftir að spila í fullt af US Open, sem ég myndi hugsanlega geta unnið. Auðvitað, gerði ég það síðan aldrei.

Síðasta skiptið, þegar ég varð í 2. sæti, þegar ég tapaði (1. sætinu) fyrir Alison Nicholas í Pumpkin Ridge árið 1997, var erfiðast.  Ég hugsaði um það lengi vel á eftir. Ég grét í hvert sinn sem ég las um það.  Ég einbeitti mér meir að US Open en fyrr, vegna þess að ég vissi að þetta væri í síðasta skiptið sem ég gæti unnið. Ég virkilega hélt að ég gæti unnið Alison. Þegar ég missti púttið á síðustu holunni, sem myndi hafa þýtt umspil, var ég eyðilögð. Ég spilaði frábært golf, hún spilaði betur. „

Heimild: Golf Digest