Miguel Angel JIménez
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 5. 2013 | 11:30

Meginlandið 8 – Bretar/Írar 6

Eftir leiki morgunsins laugardaginn 5. október (þ.e. 3. dags á Seve Trophy) er staðan 8-6 fyrir lið Meginlandsins.

Þeir sem spiluðu best fyrir lið Meginlandsins voru Miguel Ángel Jiménez sem var hreint og beint töframaður í stutta spilinu í þessari viðureign og Matteo Manassero en þeir tveir spiluðu afar vel saman og báru sigurorð af keppinautum sínum þeim Paul Casey og Tommy Fleetwood 1&0.

Joost Luiten og Grégory Bourdy voru heppnir að vinna þá Jamie Donaldson og Marc Warren 2&1, því þó þeir hefðu leitt mestallan leikinn, virtist sem þeir væru að missa dampinn á síðustu metrunum en þessu lauk þó með sigri Luiten og Bourdy.  Bourdy er á heimavelli og spilaði fantagott golf.

Nicolas Colsaerts og Gonzalo Fdez Castaño glutruðu niður kjörnu tækifæri til sigurs og álíta Skotarnir Stephen Gallacher og Paul Lawrie það  eflaust sem sigur að hafa haldið jöfnu gegn þeim en Colsaerts og Castaño voru yfir mestallan leikinn.

Eina viðureign Breta&Íra sem vannst fyrir hádegi var leikur Chris Wood og Scott Jamieson 2&1 gegn þeim Francesco Molinari og Thorbjörn Olesen, sem að því er virtist unnu ekki nógu vel saman og fá ekki að spila eftir hádegi.  Olesen missti t.a.m. tvívegis niður kjörin pútt fyrir holusigri eftir að Molinari var búin að koma boltanum með glæsihöggum nálægt holu.

Sjá má stöðu leikjanna nú í morgun með því að SMELLA HÉR: 

Eftirfarandi viðureignir fara fram eftir hádegi:

1. Nicolas Colsaerts og Gonzalo Fdez Castaño mæta aftur Paul Lawrie og Stephen Gallacher.

2. Thomas Björn og Mikko Ilonen mæta Jamie Donaldson og Marc Warren.

3. Joost Luiten og Grégory Bourdy mæta Chris Wood og Scott Jamieson

4. Miguel Ángel Jiménez og Matteo Manassero mæta þeim David Lynn og Paul Casey.