Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 6. 2015 | 08:15

McGinley: „Erum að komast nær niðurstöðu hver verður næsti fyrirliði Evrópu í Rydernum 2016″

Paul McGinley, fyrirliði Ryder bikars liðs Evrópu 2014 sagði í viðtali við SKY nú nýlega að fyrirsvarsmenn Evróputúrsins væru að nálgast niðurstöðu um hver verði fyrirliði Evrópu í Ryder Cup 2016, sem fram fer á Hazeltine í Minnesota, Bandaríkjunum.

McGinley sem leiddi lið Evrópu til sigurs 3. skiptið í röð er hluti valnefndar sem ákveður hver verður næsti fyrirliði.

Á SKY kemur fram að Darren Clarke njóti yfirgnæfandi stuðnings í fyrirliðastöðuna á Hazeltine, en aðrir líklegir kandídatar eru afmæliskylfingur gærdagsins Miguel Ángel Jiménez, og Daninn Thomas Björn. Jafnvel Írinn Pádraig Harrington hefir verið nefndur til sögunnar.

McGinley sagði í viðtali við Sky Sports News HQ að viðræður við ofangreinda aðila o.fl. stæðu yfir og að hann byggist við að næsti fyrirliði liðs Evrópu í Rydernum yrði útnefndur snemma í mars n.k.

„Það fara fram viðræður á bakvið tjöldin og ég hugsa að við séum tilbúinn með viðkomandi innan næstu tveggja mánuða.“

„Við erum bara að tryggja að við séum með allt niðurneglt áður en ákvörðun er tekin og við færumst nær og nær. Það er mikið af upplýsingum sem við erum að safna og við erum ekki milljónir mílna frá ákvörðun.“

„Eg sé það sem hlut minn í ákvörðunarferlinuað safna upplýsingum og álit mismunandi aðila. Það eru ekki aðeins leikmennirnir, heldur einnig aðrir sem hafa starfað í Ryder bikarskeppnum.“

„Það er mér mjög mikilvægt að fá góðan skilning á því hvar allir standa varðandi kandídatana og við útnefnum þann aðila sem við teljum að geti haldið áfram sigurgöngu liðs Evrópu undanfarandi ára.“