Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2013 | 11:00

Mbl.,10. júní 2004: „Kylfingurinn Ernie Els er í hópi þeirra sem banna vill púttera með löngu skafti“

Ernie Els er einn af þeim kylfingum, sem notuðu pútter með langt skaft og vann risamót; í tilviki Els vann hann Opna breska s.l. sumar 2012, s.s. öllum er í fersku minni, þegar leikur aumingja Adam Scott hrundi á síðustu holunum. Els er í dag ásamt m.a. Keegan Bradley, sem vann PGA Championship 2011 í hópi þeirra risamótssigurvegara, sem vilja að langir pútterar verði ekki bannaðir.

Ernie Els að pútta með löngum pútter á Opna breska 2012

Ernie Els að pútta með löngum pútter á Opna breska 2012

Því er skondið að rifja upp afstöðu Ernie Els fyrir tæpum 10 árum þ.e. í grein sem birtist í Mbl. fimmtudaginn, 10. júní 2004.  Hún ber fyrirsögnina: „Eru ekki hluti af leiknum“ og í feitletruðu ofan við fyrirsögnina stendur: „Kylfingurinn Ernie Els er í hópi þeirra sem banna vill púttera með löngu skafti.“

Hér fer síðan greinin:

„Kylfingurinn Ernie Els frá S-Afríku er í hópi þeirra sem telja að banna ætti púttera með löngu skafti, en slíkir pútterar hafa notið vinsælda hjá atvinnukylfingum á undanförnum misserum. Els telur að gerð pútteranna geri það að verkum að kylfingar sem þá nota geta útilokað óæskilegar hreyfingar í höndum, öxlum og úlnliðum.  En að hans mati ættu slík vandamál að vera hluti af leiknum, líkt og í gamla daga. 

„Að mínu mati á að banna þessa gerð af pútterum (löngu pútterana). Það er hluti af leiknum að glíma við útlimina undir miklu álagi. Það er alveg eins hægt að taka lyf til þess að koma í veg fyrir að vera taugaóstyrkur, en það er víst bannað,“ sagði Els við ESPN-fréttavefinn í upphafi vikunnar.

Það eru æ fleiri atvinnukylfingar sem hafa nýtt sér nýjar gerðir af löngum pútterum á undanförnum misserum.  Bandaríkjamaðurinn Paul Azinger var sá fyrsti sem sigraði á atvinnumannamóti með slíkum pútter árið 1999. 

Sum sköftin ná upp að nafla á meðan önnur eru mun lengri og ná upp að höku kylfings í mörgum tilfellum. Aðalkosturinn við þessa gerð púttera er að kylfingar geta framkallað nánast fullkomna pendúl-sveiflu með kylfuhausnum og útiloka þar með ýmsar hreyfingar í olnboga- axla og úlnliðum, sem að öðrum kosti hafa áhrif á púttstroku kylfinga.

Í hópi þeirra sem notast við slíka púttera má nefna Vijay Singh, Fred Couples, Stewart Cink, Steve Flesch, Rocco Mediate og Bernhard Langer.

Sænski kylfingurinn Jesper Parnevik er í hópi þeirra sem styðja bann við löngum pútterum en hann var nálægt því að vera dæmdur úr leik á Players- meistaramótinu á þessu ári vegna svitabanda sem hann bar rétt ofan við úlnliði beggja handa. „Það kom dómari til mín og fékk að skoða svitaböndin, hann vildi að ég setti þau ofar á framhandlegginn, þar sem að þau gætu verið túlkuð sem hlutir sem gætu bætt sveiflu mína. Og þar með væri ég úr leik í keppninni,“ sagði Parnevik, en hann hélt í fyrstu að dómaranum væri ekki alvara með tilmælunum.

Hins vegar er ekki auðvelt fyrir þá aðila sem sjá um reglubreytingar í golfi að breyta reglunum um lengd púttera , með þeim hætti að öllum líki. Það eru golfsamband Bandaríkjanna og R&A í Skotlandi sem funda tvívegis á ári um reglubreytingar og hafa löngu pútterarnir verið mikið til umfjöllunar á undanförnum misserum á þeim fundum (NB fyrir tæpum 10 árum!!!!)

Greinarhöfundur ESPN segir að verði hámarkslengd skaftsins miðuð við 1 m megi búast við því að þeir sem séu lágvaxnir geti samt sem áður notast við slíka púttera sem „langa“ gerð. „

Heimild: Mbl.