Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2023 | 08:45

Masters 2023: Röngum kylfingi sent boð um þátttöku í Masters risamótinu!

Nr. 54 á heimslistanum Scott Stallings var nýlega komið á óvart þegar hann fékk skilaboð frá manni, sem ber sama nafn og hann.

Scott Stallings, nr. 54 á heimslistanum

Í ljós kom að skipuleggjendur Masters mótsins 2023 höfðu sent röngum Scott Stallings boðskort um að spila á Masters mótinu 2023 – en hinn rangi Scott Stallings ber augljóslega sama nafn og nr. 54 á heimslistanum, hann býr á  sama svæði og jafnvel eiginkonur beggja heita báðar Jennifer.

Atvinnukylfingurinn Scott Stallings fór á Twitter og sagði frá þessum skrítna ruglingi:

„[Ég] var bókstaflega búinn að tékka á pósthólfinu mínu fimm sinnum á dag, þegar ég fékk tilkynningunni í gær,“ skrifaði Stallings, eftir að hann fékk eftirfarandi skilaboð frá nafna sínum:

Hæ Scott. Ég heiti líka  Scott Stallings og er frá Georgíu. Konan mín heitir líka Jennifer.“

“Ég fékk bréf með FedEx í dag, þar sem mér er boðið að spila í Masters risamótinu 6.-9. apríl 2023.“ 

“Ég er 100% viss um að  EKKI er verið að bjóða mér. Ég spila golf en vá! … hvergi nærri á því stigi sem þú gerir.

„Þetta er mjög fallegur pakki með öllu sem þarf til þátttöku í Masters. Ég held að það sé eitthvað rugl í gangi vegna nafna okkar, nafna eiginkvenna okkar og landfræðilegri staðsetningu.“

„Ég er ekki að grínast, ég lofa því.“

Sjá má frétt um ruglinginn á Youtube með því að SMELLA HÉR: 

Scott Stallings atvinnukylfingi var auðvitað létt og þakkaði nafna sínum fyrir „að gera hið rétta“ þ.e. skila bréfinu í réttar hendur. Hann ætlar að bjóða nafna sínum og eiginkonu hans á Masters með sér til þess að sjá æfingahringi fyrir aðalkeppnina og síðan í mat á mánudeginum í Mastersvikunni.