Alparósarbrautin á Augusta National (Azalea) 13. brautin
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 11. 2023 | 09:00

Masters 2023: Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Masters

Núna í ár var 87. skiptið sem Masters risamótið fór fram.

Á þessum tímapunkti er e.t.v. skemmtilegt að rifja upp nokkrar staðreyndir um mótið.

1. Hver er sá yngsti og sá elsti til þess að sigra á Masters til dagsins í dag?

Svar: Sá yngsti til að sigra á Masters er Tiger Woods. Þegar hann vann Masters 1997 var hann aðeins 21 árs – og hann sigraði með þvílíkum yfirburðum, átti heil 12 högg á næsta keppanda, sem er jafnframt metið yfir mesta mun á skori milli 1. og 2. sætishafa á Master risamótinu.  Það er af sem áður var, nú í ár (2023) þótti afrek að hann skyldi komast í gegnum niðurskurð, þó hann hafi síðan ekki lokið keppni þar sem hann þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Sá elsti til að sigra á Masters er Jack Nicklaus, en hann var 46 ára þegar hann sigraði á Masters 1986.

2. Hver hefir sigrað oftast á Masters?

Til dagsins í dag er það Jack Nicklaus sem sigrað hefir oftast eða 6 sinnum (1963, 1965, 1966, 1972, 1975, 1986) Tiger er sá kylfingur sem sigrað hefir næstoftast á Masters, eða alls 5 sinnum: (1997, 2001, 2002, 2005 og 2019).  Aðeins 17 kylfingum til dagsins í dag, hefir tekist að sigra oftar en 1 sinni á Masters.  Eins og flestir vita sem fylgjast með golfi á Nicklaus, enn til dagsins í dag, metið yfir sigra í flestum risamótum eða 18, hefir sigrað í 3 fleiri risamótum en Tiger, sem sigrað hefir 15 sinnum.  Tiger er orðinn 47 ára og oft meiddur og ólíklegt þykir að honum muni takast að slá risamótamet Nicklaus – til þess þyrfti hann að sigra í 4 risamótum … og til þess þarf kraftaverk, miðað við stöðuna hjá honum í dag!

3) Hver á besta heildarskorið (72 holur) á Masters til dagsins í dag?

Það á Dustin Johnson (DJ). Hann lék á samtals 268 höggum,  í Masters  risamótinu 2020. Sigurskor Rahm núna í ár var til samanburðar 276 högg.

4) Hvert er lægsta skor á 18 holu hring á Masters og hver á það?

Það eru tveir, sem til dagsins í dag eiga lægsta 18 holu hring á Masters. Lægsta skorið á 18 holu hring er 9 undir pari, 63 högg og tveir kylfingar eru handhafar þess mets á Masters miðað við daginn í dag: Nick Price náði þessu lága skori árið 1986 og Greg Norman 1996.

5) Hefir áhugamanni nokkurn tímann tekist að sigra á Masters?

Stutta svarið er: Nei. Engum áhugamanni í golfi hefir nokkru sinni tekist að sigra á Masters.

6) En hver skyldi þá vera besti árangur áhugamanns, sem keppti í Masters?

Besti árangur áhugamanns er árangur Ken Venturi árið 1956, en hann náði 2. sæti. Frank Stranahan varð T-2 árið 1947, Charlie Coe varð T-2 árið 1961; Billy Joe Patton varð í 3. sæti árið 1954; Harvie Ward, í 4. sæti 1957; Jack Nicklaus varð T-7 árið 1961; Ryan Moore T-13 árið 2005 og Sam Bennett sem keppti í ár, 2023, varð T-16 (sem er 8. besti árangur áhugamanns frá upphafi á Masters).

7) Hvert er besta (72 holu)  heildarskor áhugamanns á Masters?

Besta heildarskor áhugamanns á Masters, til dagsins í dag, á Charlie Coe, þegar hann lék á samtals 7 undir pari, árið 1961 og átti Gary Player, sem sigraði aðeins 1 högg á hann. Sam Bennett, silfurbikarshafinn í ár lék á samtals 2 undir pari.