Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2022 | 23:00

Masters 2022: Im leiðir e. 1. dag

Það er Sungjae Im frá S-Kóreu sem leiðir eftir 1. dag á Masters risamótinu.

Im lék á 5 undir pari, 67 höggum.

Hann átti glæsibyrjun fékk 3 fugla á 1. 2. og 3. holu og bætti síðan 4. fuglinum við á 7. holunni.

Á seinni 9 fékk Im tvo skolla á fyrstu tvær holurnar, en tók það glæsilega tilbaka á par-5 13. brautinni, þar sem hann fékk örn.  Hann lauk svo glæsihring sínum með fugli á 15. braut og kláraði síðan síðustu 3 holurnar á sléttu pari.  Niðurstaðan: 5 undir pari, 67 högg, sem gefur honum forystuna.

Ástralinn Cameron Smith er í 2. sæti á 4 undir pari, 68 höggum.

Síðan eru T-3 þeir Scottie Scheffler, Dustin Johnson, Joaquin Niemann og Danny Willett; allir á 3 undir pari, hver.

Tiger Woods er hreint út sagt  ótrúlegur, spilaði 1. hring á 1 undir pari, 71 höggi; er T-10 og ógnandi.

En það er nóg golf eftir!

Þegar Golf1 skrifar þetta eru allir farnir út en sumir eiga eftir að spila 1-2 holur, en ólíklegt að nokkuð breyti stöðunni hjá efstu mönnum mótsins.

Sjá má stöðuna á Masters að öðru leyti með því að SMELLA HÉR: