Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 6. 2022 | 17:35

Masters 2022: Fleiri en Tiger með heilsuvandamál – José María Olazábal

José María Olazábal er einn þeirra 91 sem er með þátttökurétt og ætlar að spila á Masters 2022.

Það er vegna þess að allir fyrrverandi sigurvegarar Masters hafa lífstíðar þátttökurétt.

Olazábal sigraði á Masters 1994 og 1999.

Síðan var hann fyrirliði sigurRyderbikarsliðs Evrópu, árið 2012.

En það eru fleiri en Tiger sem eiga við heilsuvandamál að glíma á Masters og er Olazábal einn þeirra.

Olazábal hefir lengi þjáðst af gigt. Þetta er langvinnur sjálfsofnæmissjúkdómur (ens: auto immune disease) sem veldur bólgu og verkjum í kringum liði, sem hefur aðallega áhrif á hendur og fætur, sem er sérlega slæmt fyrir ofurkylfing, sem Olazábal er.

Sjúkdómurinn hefir haft hamlandi áhrif á feril Olazábal. Sem dæmi mætti nefna að hann varð að draga sig úr Ryder bikarnum 1994 vegna sjúkdómsins.

Þegar verst lét átti hann í vandræðum með að ganga.

Þetta er ólæknandi sjúkdómur, en rannsóknir hafa sýnt að því fyrr sem tekin eru lyf, þeim mun meir og fyrr dregur úr einkennum sjúkdómsins.

Löng og strembin mót eins og Masters eru sérlega erfið fyrir Olazábal og oft hefir maður á tilfinningunni að hann vilji bara spila 2 hringi á einum fallegasta velli heims!