Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 15. 2019 | 05:00

Masters 2019: Tiger fagnaði með börnum sínum, móður og kærustu

Tiger Woods var bara 21 árs krakki þegar hann vann fyrsta Masters titil sinn (og þann fyrsta af 15 risatitlum) árið 1997.

Þegar hann sigraði Masters risamótið í 5. sinn, var hann sköllóttur 43 ára faðir hinnar 11 ára Sam Alexis og hins 10 ára Charlie Axel, sem mætt voru ásamt ömmu sinni Kultidu og kærustu föður þeirra, Ericu Herman, til þess að fagna með föður sínum.

Tiger fagnar með móður sinni, syni, dóttur og kærustu

Þau sáu þegar Tiger setti niður skolla-pútt sitt á 18. fyrir 1 höggs sigur á þá Brooks Koepka, Dustin Johnson og Xander Schauffele.

Sjá má lokastöðuna á Masters 2019 með því að SMELLA HÉR: 

Faðir minn (Earl Woods) er ekki lengur hér,“ sagði Tiger „en mamma mín (Kultida) er hér, 22 árum síðar, og það vill svo til að ég vinn (risa) mótið. Og að hafa bæði Sam og Charlie hér – þau voru þarna á Opna breska á síðasta ári þegar ég var í forystu á seinni 9 og gerði nokkur mistök, sem kostuðu mig tækifærið til að vinna Opna breska.“

Ég ætlaði ekki að láta það koma fyrir þau tvisvar,“ bætti Tiger við, brosandi. „Og svo fyrir þau að sjá hvernig það er að pabbi þeirra sigri risamót, ég vona að það sé nokkuð sem þau gleymi aldrei.“

Í þetta sinn var það Francesco Molinari sem beið lægri hlut, en hann fékk skramba bæði á 12. og 15. holur Augusta National meðan Tiger náði að halda haus. Hann fylgdi eftir tveggja pútta fugli sínum á 15. með „næstum ás“ á 16. og var þar með kominn á samtals 14 undir par og gaf sjálfum sér þar með færi á að honum nægði skolli til sigurs.

En krakkar Tiger höfðu þegar orðið vitni að sigrum föður síns og vissu að hann ættu miklu meira eftir en að horfa á gamlar YouTube upptökur af sér á hápunkti ferilsins; þau hafa séð hann sigra á World Golf Championships-Bridgestone Invitational 2013 og eins sigraði Tiger á lokamóti FedEx Cup þegar hann sigraði á TOUR Championship í East Lake, sl. haust, sem var 80. sigur hans á PGA Tour. En sigur hans á 83. Mastersmótinu er fyrsti sigur hans í risamóti síðan 2008, þegar hann vann Opna bandaríska – 11 löng, sigurlaus ár – uppfull af bakmeiðslum eru nú að baki!!!

Risasigurinn kom eftir ítrekaða bakuppskurði, þar sem Tiger hræddist það á einum tímapunkti að geta ekki einu sinni leikið við Sam og Charlie.

Hvað sögðu krakkarnir hans við hann eftir sigurinn? Hann veit það ekki. Það var of hátt, allir voru öskrandi þ.á.m. hann sjálfur.

Ég held að krakkarnir séu farnir að skilja hversu mikla þýðingu þessi leikur (golfið) hefir fyrir mig og sumt af því sem ég hef afrekað í leiknum,“ sagði Tiger. „Áður en ég kom aftur vissu þau aðeins að golfið hefði valdið mér miklum sársauka. Ef ég reyndi að sveifla kylfu, datt ég í jörðina og ég barðist árum saman og í raun er það allt sem þau muna.“

Eftir að hafa fylgst með föður sínum í dýpstu lægð þá hafa þau nú séð hann ná hæstu hæðum.

Þetta skiptir mig öllu,“ sagði Tiger. „Ást þeirra og stuðningur, ég get ekki sagt nóg um hversu mikla þýðingu það hefir haft fyrir mig í öllu strögglinu, þegar ég átti í erfiðleikum bara að hreyfa mig. Hamingja þeirra var smitandi vitið þið, ég var að ganga í gegnum erfiða tíma líkamlega séð. Það var oft að ég gat ekki hreyft mig og það eitt var erfitt.“

En bara að hafa þau hérna (á Masters) og síðan að þau sjái pabba sinn sigra, alveg eins og pabbi sá mig sigra hér, er ansi sérstakt …