Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2018 | 01:00

Masters 2018: Reed í forystu f. lokahringinn

Bandaríski kylfingurinn Patrick Reed heldur forystu sinni á Masters risamótinu fyrir lokahringinn, sem spilaður verður seinna í dag.

Hann á 3 högg á þann sem næstur kemur en það er Rory McIlroy og stefnir því í einvígi þeirra á milli.

Reed er búinn að spila á samtals 14 undir pari, 202 höggum (69 66 67).

Stóra spurningin er hvort Reed fatast flugið og  Rory tekst að ná upp 3 höggum, en Rory er búinn að spila á samtals 11 undir pari, 205 höggum (69 71 65).

Rory átti stórglæsilegan hring upp á 7 undir pari, 65 högg í dag; hring þar sem hann fékk einn glæsiörn á par-5 8. brautinni og auk þess 5 fugla (á 3., 4. 6. 15. og 18. braut).

Rory var ekki einn um að vera með lægsta skor dagsins, Rickie Fowler og Jon Rahm áttu álíka frábæra hringi upp á 7 undir pari, 65 högg. Þessir hringir skutu Rickie upp í 3. sætið og og Rahm upp í 4. sætið  og gætu þeir því einnig blandað sér í baráttuna um sigurinn.

Samtals er Rickie búinn að spila á 9 undir pari, 207 höggum (70 72 65) en Jon Rahm á 8 undir pari, 208 högum (75 68 65).

Henrik Stenson er síðan einn í 5. sæti á samtals 7 undir pari, 7 höggum á eftir Reed.

Telja verður líklegt að sigurvegari Masters 2018 sé einn af þessum 5 fyrrgreindu kylfingum, nema eitthvað stórkostlegt komi til.

Til þess að sjá stöðuna á Masters risamótinu að öðru leyti SMELLIÐ HÉR: