Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2018 | 06:00

Masters 2018: Patrick Reed sigraði!!!

Það var bandaríski kylfingurinn Patrick Reed sem stóð uppi sem sigurvegari á Masters, fyrsta risamóti ársins.

Sigurskor Reed var 15 undir pari, 273 högg (69 66 67 71).

Fyrir sigurinn á Masters hlaut Reed € 1,615,403.

Reed er sá fyrsti frá árinu 2011, sem er utan topp-20 á heimslistanum til þess að sigra á Masters, en hann var fyrir risamótið í 24. sæti heimslistans – Nú eftir helgina færist hann upp um 13 sæti og er kominn í 11. sætið og bankar því á dyrnar á topp-10.

Patrick Reed fæddist 5. ágúst 1990 í San Antonio, Texas og því 27 ára.  Hann er vel kunnugur vellinum á Augusta National, því hann varði háskólaárum sínum í  University of Georgia og Augusta State University; en golfliðum beggja skóla er boðið árlega að spila á Augusta National.

Aðeins munaði 1 höggi að Rickie Fowler kæmist í bráðabana, en hann varð í 2. sæti á 14 undir pari, 274 höggum (70 72 65 67).

Jordan Spieth varð í 3. sæti á 13 undir pari og Jon Rahm í 4. sæti á 11 undir pari.

Fjórir kylfingar deildu loks 5. sætinu: Rory McIlroy, Henrik Stenson, Cameron Smith og Bubba Watson.

Til þess að sjá úrslitin á Masters 2018 SMELLIÐ HÉR: