Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 3. 2012 | 10:00

Martin Kaymer vinnur „málverka-málið“ fyrir þýskum dómi

Eiginlega hafði hann ekkert illt í hyggju, þýski málarinn Alexander Maurer, 42 ára, sem málaði mynd af Martin Kaymer í Pop-Art stíl og ætlaði að selja það á netinu fyrir 43,5 evrur (um 8.000,- íslenskar krónur).

Alexander Maurer við mynd sína af Kaymer sem er unnin í pop-stíl.

Martin Kaymer fór hins vegar í mál og bar fyrir sig brot á friðhelgi einkalífs síns.  Málið fór fyrir Landesgericht (2. dómstig) í Þýskalandi þar sem dómur féll 28. nóvember s.l. Kaymer í vil.

Alexander Maurer skilur heiminn ekki lengur. Hann er mikill golfáhugamaður og var þegar búinn að mála 2 myndir af Kaymer eftir sigur þess síðarnefnda á PGA Championship 2010.  Málarinn hafði áður málað myndir af þekktum stjörnum, sem þó voru allar látnar, og vann með því fyrir salti í grautinn. Þar til á miðvikudaginn í síðustu viku a.m.k.

Meðal þess sem Kaymer hafði um málið að segja var þetta: „Það hefði a.m.k. verið hægt að biðja mig um leyfi áður en myndin var máluð.“

Rök dómsins fyrir niðurstöðu sinni voru m.a. að Maurer hefði málað myndirnar með hagnaðarvon í huga. Kaymer hefði ekki verið sýndur í einhverju viðkomandi golfi og því hefðu myndirnar ekkert upplýsingargildi og þ.a.l. tæki frelsi listamanna ekki til málsins.

„Ég get bara allt eins lagt upp laupana núna,“ sagði Maurer, því nú þarf hinn 42 ára listamaður auk sektar að greiða lögfræði og réttarkostnað að upphæð samtals € 20.000 (u.þ.b.  3,5 milljónir íslenskra króna) en rétturinn lækkaði þó kröfu lögmanna Kaymer, sem kröfðust € 100.000,-  (16,3 milljóna) f.h. skjólstæðings síns.

Spurning hvort Kaymer hafi ekki bara verið að gera Maurer greiða – myndin á eflaust eftir að seljast upp í lögfræðikostnaðinn auk þess sem öll umfjöllunin vekur athygli á Maurer sem listamanni!