Martin Kaymer
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2012 | 13:00

Martin Kaymer spilar á PGA Tour 2013

Ryder Cup hetjan Martin Kaymer er meðal síðustu, sem tilkynnt hefir að hann muni spila á bandaríska PGA túrnum næsta keppnistímabil, 2013.

Eftir sigurinn á PGA Championship 2010 vildi Kaymer, sem nú er nr. 30 á heimslistanum,  fyrst um sinn ekki spila í Bandaríkjunum, en nú hefir hann tilkynnt að hann ætli sér að nýta sér undanþágu sína sem hann hlaut við sigur á risamótinu í Whistling Straits og spila í Bandaríkjunum.

Svínn Peter Hanson og Belginn Nicolas Colsaerts, tveir af liðfélögum Kaymer í  Chicago í september s.l., spila líka á PGA Tour, þökk sé stöðu þeirra á peningalista PGA Tour og eins mun Englendingurinn David Lynn spila vestra þökk sé 2. sæti hans á  PGA Championship risamótinu í ágúst s.l.

Fjórmenningarnir mun allir spila bæði á PGA Tour og Evrópumótaröðinni 2013, líkt og nr. 1 á heimslistanum Rory McIlroy og nr. 2 Luke Donald, sem og Lee Westwood, Justin Rose, Graeme McDowell, Ian Poulter, Padraig Harrington, Sergio Garcia og Henrik Stenson.

Það gætu jafnvel enn fleiri hlotið spilarétt á PGA Tour þegar úrslit lokaúrtökumóts Q-school á PGA liggja fyrir en þar keppa Englendingarnir Ross Fisher og Oliver Fisher – enginn skyldleiki þar – Frakkinn Romain Wattel og sænska dúó-ið Robert Karlsson og Alex Noren.

Noren og Wattel taka báðir þátt í móti vikunnar í Dubai, áður en þeir snúa aftur til Bandaríkjanna en Ross Fisher hefir sagt sig frá mótinu í Dubai og einbeitir sér að undirbúningnum fyrir Q-school.

Það eru aðeins 2 í Ryder Cup liði Evrópu í Medinah 2012 sem spila ekki á PGA Tour en það eru Skotinn Paul Lawrie og Ítalinn Francesco Molinari.