Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 18. 2011 | 06:00

Manassero heitir því að snúa aftur til Ástralíu

Ítalski unglingurinn Matteo Manassero hefir lokið leik á JBWere Australian Masters í Victoria Golf Club og vonast eftir að geta snúið aftur til Ástralíu sem fyrst.

Jafnvel þó Manassero hafi ekki alveg staðið undir væntingum, þá lauk hann leik á ágætisskori 68 höggum, þar sem hann fékk m.a. 4 fugla og örn og var samtals á -1 undir pari.

Nr. 58 á heimslistanum (Matteo Manassero) sagðist hafa skemmt sér á Masters og vonaðist til að fá meiri tíma til að spila í Ástalíu í framtíðinni.

„Ég kom hér í mesta flýti vegna þess að ég var að spila í Dubai í síðustu viku,“ sagði Manassero eftir lokahringinn.

„En ég er virkilega ánægður að hafa fengið þessa reynslu. Þetta hefir verið gaman í Melbourne og ég vonast til að koma aftur.“

Manassero viðurkenndi að hann hefði átt í erfiðleikum með hröðu flatirnar á strandvellinum.

„Það var erfitt að lesa þær … en ég gerði líka mistök,“ sagði hann. „Ég spilaði vel, en náði ekki að setja niður mörg pútt.“

Það var fyrsti hringurinn upp á 76 högg sem eyðilagði möguleika Manassero á að verða meðal þeirra efstu, en frábært skor hans á föstudaginn upp á 67 högg og skorið í dag (68 högg) veitti innsýn í þá miklu hæfileika hans, sem hefir verið mörgum undrunarefni í golfheiminum síðustu misseri.

Manassero er yngsti sigurvegari á Evróputúrnum – hann vann Castello Masters í október 2010 og síðan Malaysian Open í apríl á þessu ári.  Þessir 2 sigrar ásamt topp-10 árangri í BMW PGA Championship og á Italian Open urðu til þess að Matteo Manassero komst svo hátt sem í 29. sæti heimslistans.  Þessi ítalski strákur (Manassero) hefir heitið sér því að verða stöðugri 2012 og ná aftur sæti meðal 50 efstu á heimslistanum.

„Ég vil komast aftur meðal topp-50 og róa leik minn aðeins,“ sagði hann. „Ég er svo nálægt því á stundum en gengur vel og illa hring eftir hring. Ég vil bara verða aðeins stöðugri, líkt og ég var í upphafi þessa árs.“

Heimild: PGA Tour of Australasia