Hunter Mahan. Mynd: PGA Tour
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 5. 2012 | 04:00

Mahan finnur fyrir tómarúmi fyrir að hafa ekki verið valinn í bandaríska Ryder Cup liðið – Kaymer hissa að Mahan sé ekki í liðinu

„Þátttaka í Ryder Cup er markmið sérhvers bandarísks kylfings og það eru vonbrigði að vera ekki hluti af því,“ sagði Hunter Mahan, núverandi heimsmeistari í holukeppni við blaðamenn, þegar ljóst var að hann yrði ekki í Ryder Cup liði Bandaríkjanna 2012. Hunter Mahan er nú við æfingar í Carmel, Indiana þar sem BMW Championship, 3. mót FedExCup umspilsins fer fram í þessari viku.

„Ég hef verið hluti af síðustu 5 liðum Bandaríkjamanna  og það er sárt að vera ekki hluti þeirra nú,“ bætti hann við og átti við þátttöku sína í síðustu liðum Bandaríkjamanna í Ryder Cup og Forsetabikarnum.

„Það er svolítið tómarúm sem ég finn fyrir í augnablikinu.“

Martin Kaymer

Einn þeirra sem er hissa á því að Hunter Mahan skuli ekki hafa verið valinn í bandaríska Ryder Cup liðið er Martin Kaymer, sem rétt slapp inn í evrópska Ryder Cup liðið.

Hann sagði að hægt hefði verið að setja nöfn Snedeker, Rickie Fowler og Hunter Mahan í hatt og draga út hvern sem væri – en á hinn bóginn væri á það að líta að Fowler og Mahan hefðu Ryder Cup reynslu frá árinu 2010, sem Snedeker skorti.