Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 1. 2015 | 08:15

Maður dæmdur í Allenby-málinu

Maður að nafni Owen Harbison hlaut dóm í gær fyrir að nota kreditkort kylfingsins Robert Allenby og taka út vörur m.a. fatnað og skartgripi í leyfisleysi.

Ekki var gefið upp andvirði varanna sem Harbison hafði af Allenby með kortanotkuninni.

Dómurinn hljóðaði upp á allt að 5 ára fangelsi en nánari viðurlagaákvörðun fer fram 12. ágúst n.k.

Margt er enn á huldu um atvikið en mynd af krambúleruðum Allenby gengu um alla golfheimspressuna s.l. janúar, þar sem hann sagðist m.a. þjást af hálfgerðu minnisleysi um atburðinn, en gat þó sagt að hann hefði verið sleginn niður og kreditkortum hans rænt.

Eitt vitni kom síðar fram og sagði að Allenby hefði sjálfur veitt sér áverkana og fóru þá af stað sögur um að atvikið hefði verið hannað og búið til af Allenby til þess að hljóta athygli, en minna hefir verið um athygli vegna golfleikjar hans á undanförnum árum.

Hvað rétt er í málinu er erfitt að segja en eitt er víst að sönnun tókst um að Harbison hefði notað kort Allenby, nóttina umræddu sem Allenby sagðist hafa verið rændur og barinn og dagana þar á eftir.