Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2013 | 18:00

Má rekja uppruna golfs til lambasparða og kindaskíts?

Má rekja uppruna golfs til lambasparða og kindaskíts?

Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er NEI. En það er til sögusögn um uppruna golfsins sem er eitthvað á þá leið að golf hafi fyrst verið spilað af fjárhirðum í Hálöndum Skotlands. Þegar þeir voru að reka kindurnar voru þeir með stafi sem nefndust Shillelaghs. Þessir stafir voru skv. hefð með stóran hnúð á endanum. Fjárhirðarnir notuðu Shillelaghana sem stafi til að styðjast við og eins við að halda fénu saman á grýttum, sleipum, votum og leirugum fjallshlíðunum.  Sumir vegirnir í hlíðunum voru mikilvægari en aðrir þar sem þeir lágu að vatnsbólum.  Þessi vatnsból fylltust stundum af kindaspörðum og notuðu hirðingjarnir þá Shillelaghana sína til þess að þeyta spörðunum upp úr til þess að verja vatnsbólin, svo þau  menguðust ekki. Þeir þurftu að nota miskraftmikil högg eftir því hversu þurr spörðin voru.  Þetta varð með tímanum hin besta skemmtun hirðingjanna, sem þeir nefndu „shite.“  Shite-ið þróaðist síðan í golf.

Þetta segir dagblað í Philadelphiu, sem var að fjalla um Merion golfvöllinn, þar sem Opna bandaríska fer fram 13-16. júní n.k., að sé uppruni golfsins!

Svo mikið er víst að þetta er EKKI uppruni golfsins, hins vegar væri fróðlegt að þekkja uppruna sögunnar – hvort einhverjum frjóum á ritstjórninni hafi dottið svona líka „snilldarleg“ saga í hug í algerri gúrkutíð?  A.m.k. höfum við á Golf1 aldrei rekist á þessa útgáfu af uppruna golfsins!  Sagan er ekkert verri fyrir það ….. fyrir þá sem hafa gaman af sögum ……