Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 20. 2011 | 16:30

Luke Donald valinn kylfingur ársins af blaðamönnum

Nr. 1 í heimi golfsins, Luke Donald,  hefir nú hlotið enn eina rósina í hnappagatið. Honum var veittur Golf Writers Trophy 2011, þ.e. hann var valinn kylfingur ársins af blaðamönnum. Darren Clarke sigurvegari Opna breska og Rory McIlroy sigurvegari Opna bandaríska deildu 2. sætinu í kjörinu, meðan evrópska Solheim Cup liðið undir forystu Alison Nicholas varð í 4. sæti og Walker Cup liðið í því 5.

„Sérhver verðlaun sem maður hlýtur veita manni mikla ánægju og að blaðamenn skuli velja mig sem kylfing ársins hefir mikla þýðingu fyrir mig, virkilega,” sagði Luke. „Þetta er fólkið sem virkilega skilur golf og kann að meta þann árangur sem ég hef náð í ár.”

„Allir sem í kjöri voru til þess að hljóta AGW verðlaunin, Rory, Darren, Solheim Cup liðið og Walker Cup liðið – hefðu verðskuldað að sigra og því er það enn ánægjulegra að hafa verið valinn umfram þau. Þetta hefir geysimikla þýðingu fyrir mig,” sagði Luke Donald.

Heimild: europeantour.com