Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2012 | 13:00

Evrópumótaröðin: Luke Donald efstur í Dubai eftir 1. dag DP World Tour Championship

Það er enski kylfingurinn Luke Donald nr. 2 á heimslistanum, sem leiðir á DP World Tour Championship eftir 1. dag á Jumeirah Estate golfvellinum.  Sigurinn á Phoenix Dunlop í Japan í síðustu viku hefir væntanlega haft sitt að segja og Donald í mótinu fullur sjálfstrausts.

Donald kom inn á glæsilegum 7 undir pari, 65 höggum. Skorkort hans var „hreint“ og einkar flott ekkert á því nema 7 fuglar og 11 pör.

Donald sagði m.a að glæsihring sínum loknum: „Það var á ákveðnum kafla þar sem mér fannst mér ekki geta mistekist. Ég sló nokkur reglulega góð járnahögg og það er gaman þegar manni finnst allt auðvelt.“

Í 2. sæti er sá sem leiddi í mestallan morgunn Skotinn Marc Warren, en hann rétt slapp í mótið var í 55. sætinu á Race to Dubai listanum.  Warren deilir 2. sæti sínu með Spánverjanum Gonzalo Fernandez-Castaño og nr. 1 á heimslistanum og peningalistum Evrópumótaraðarinnar og PGA Tour, Rory McIlroy.

Þeir eru allir 3 á hæla Donald, aðeins 1 högg skilur þá að því þeir spiluðu allir á 6 undir pari, 66 höggum.

Hópur 6 kylfinga deilir síðan 5. sætinu þ.á.m. Martin Kaymer og Lee Westwood, á 5 undir pari, 67 höggum.

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag DP World Tour Championship SMELLIÐ HÉR: