Lucy Li 4 ára grét vegna þess að hún vildi ekki fara af æfingasvæðinu!
Lucy Li komst í fyrirsagnir golffréttamiðla nú fyrir skemmstu, þegar hún sló aldursmet Lexi Thompson fyrir að vera sú yngsta nokkru sinni til þess að fá keppnisrétt í US Women´s Open risamótinu.
Lexi var 12 ára 4 mánaða og 18 daga ung þegar hún keppti í US Women´s Open 2007; Li sem verður 12 ára 1. október 2014 verður 11 ára 8 mánaða og 19 daga ung þegar hún tíar upp í risamótinu á kvenfrelsisdaginn, 19. júní n.k.
Sagt er að Li hafi byrjað að æfa aðeins 7 ára en sveifla Lucy Li er allt of góð til þess að það geti verið rétt!
Joby Ross golfkennari í Mariners Point Golf Center, sem er nálægt heimili Li í Redwood Shores, í Kaliforníu segir Lucy líka hafa verið yngri, u.þ.b. 4-5 ára þegar hún kom fyrst á æfingasvæðið með mömmu sinni Amy og móðursystur Tao.
Ross segir að Li hafi ekki komið til sín í golftíma. Henni var kennt af mömmu sinni og frænku, sem hvorugar spila golf! „Ég held að þær hafi bara verið með bækur og tímarit og voru að reyna að kenna henni eins vel og þær gátu. Þetta var býsna áhugavert, Stundum sá ég hluti sem ekki voru réttir og ég fór til þeirra og benti þeim á smávægilega hluti einsog „hún er að taka kylfuna of langt inn“ …. en það var líka allt og sumt.“
Á Mariners Point er æfingasvæði, svæði til að æfa stutta spilið og 9 holu par-3 völlur.
Ross segist hafa verið mjög hrifinn af því sem hann sá hjá Lucy og fylgdist því með henni.
„Eftir að hún hætti að koma hingað þá man ég eftir að ég sagði strákunum hérna að bíða og sjá við ættum sko eftir að heyra um hana síðar!“ „Það sem hún gerði var bara svo sérstakt.“

Lucy Li á U.S. Women’s Public Links í Jimmie Austin OU golfklúbbnum í Norman, Oklahoma, þriðjudaginn, 18. júní 2013.
Og Li er þegar búin að láta golfheiminn heyra frá sér svo um munar. Li sem aðeins er í 6. bekk vann úrtökumótið á Old Course at Half Moon Bay hjá San Francisco með hringjum upp á 74 og 68 og mun nú fá tækifæri að spila með bestu kvenkylfingum heims á Pinehurst Nr. 2 í Opna bandaríska kvenrisamótinu í næsta mánuði.
Kylfingar eins og Lexi Thompson og Lydia Ko eru eins og öldungar við hlið Lucy Li!!!
„Þetta er ótrúlegt. Undraverð saga,“ segir Jim McLean, sem hefir kennt Li frá 7 ára aldri. „Ég veit hversu góð hún er, en ég varð samt undrandi!“
McLean sagði að fjölmargir miðlar hefðu haft samband við sig og vildu fá að heyra sögu Li, en fjölskyldan hefir verndað dóttur sína og hún hefir engin viðtöl gefið. Í stað þess sendi fjölskyldan fréttatilkynningu, sem komið var á framfæri í gegnum bandaríska golfsambandið USGA. Þar sem sagði:
„Lucy er mjög stolt af því að hafa fengið keppnisrétt á U.S. Women’s Open 2014 og yfir að fá tækifæri til þess að keppa í þessu virta móti.“
„Tíminn sem hún hefir varið í að spila á golfmótum golfsambandsins (bandaríska) á síðasta ári sem og sigur hennar í dræv, vipp & pútt mótinu (í Augusta í aðdraganda the Masters) hafa veitt henni mörg góð tækifæri, sem hún mun velta fyrir sér meðan hún undirbýr sig fyrir US Women´s Open.“
„Við erum mjög stolt af þeim stuðningi sem Lucy hefir fengið, bæði frá golfsamfélaginu og fjölmiðlum. Hún hlakkar til að spila á Pinehurst.“
Á síðasta ári varð Li þar að auki sú yngsta til þess að vinna sér inn keppnisrétt gegnum úrtökumót á Women’s Amateur Public Links Championship. Þannig að Li er búin að afreka ýmislegt þrátt fyrir að hafa aðeins spilað golf í 7 ár eða meirihluta þ.e. næstum 2/3 hluta ævinnar!!!
McLean rifjar upp þegar foreldrar Li hringdu fyrst í hann í Trump Doral í Miami og spurðu hvort hann vildi kenna henni. Hann var ekki viss hvort henni hefði verið kennt með formlegum hætti áður en þau komu með hana til hans.
„Hún er líklega aðeins of ung til þess að ég geti byrjað að vinna með henni,“ sagðist McLean hafa sagt. En foreldrarnir komu samt með hana og báðu hann um að horfa á hana slá og sögðu að þeim væri alvara með að flytja hana á veturna til Miami frá Kaliforníu. Í fyrstu komu mamma Lucy og frænka hennar Tao með henni og síðan fékk Tao sér íbúð nálægt Trump Doral og Lucy bjó hjá henni í 4 mánuði til þess að geta farið í golfskóla McLean.
Warren, pabbi Lucy er tölvuráðgjafi, sem vinnur rétt hjá San Francisco í hinum enda Bandaríkjanna og því fylgdi fjölskyldan öll ekki Lucy.
„Maður veit líka aldrei með krakka, hversu miklan áhuga þeir hafa eða hvað kemur til með að afvegaleiða áhuga þeirra,“ sagði McLean.
McLean sagðist líka alveg frá upphafi hafa verið forvitinn hversu mikinn áhuga Lucy hefði sjálf á golfinu og hversu mikið af öllu umstanginu væri kominn af völdum ofurmetnaðarfullra foreldra.
Hann sagðist fljótt hafa séð hversu mjög hún elskaði leikinn. Þetta var það sem hún vildi sjálf. Það var enginn að þvinga hana til neins.
Ross (kennarinn í San Francisco sem fyrst fylgdist með Lucy Li) sagðist hafa spurt sig sömu spurningar.
Eitt sinn sagðist hann hafa séð Lucy Li háöskrandi og grátandi og flýtti sér yfir til Amy og Tao til þess að segja þeim að þær mættu alls ekki „þvinga“ krakkakrílið 4 ára til þess að vera að æfa.
„Þær komu og voru á æfingum með henni klukkustundum saman. Ég velti fyrir mér hvort æfingarnar væru of miklar og það væri það sem grátkastið snerist um og fór því og spurði hvort allt væri í lagi?“
Raunveruleikinn sem við honum blasti var allt annar. Mamma Lucy, Amy og móðursystir hennar Tao voru einfaldlega orðnar þreyttar og vildu fara heim, en tárin runnu niður vanganna á hinni 4 ára Li, sem heimtaði að fá að vera áfram á æfingasvæðinu að æfa sig.
„Lucy var bara óhuggandi vegna þess að hún vildi ekkert fara!“ sagði Ross.
McLean segir að Lucy virðist í fyrstu hæglát og feimin en hún sé með „heilmikinn persónuleika“ og sé „mjög fyndin“ og finnist gaman að hlægja. Henni finnst gaman að tónlist og að teikna. Hún teiknar oft á skorkortin sín og hefir listræna hæfileika. Hún er svolítið fyrir glingur eins og margar litlar hnátur; finnst t.a.m. flott að vera með armbönd og hálsfestar.
Það að Lucy er svona góð í golfi kemur m.a. til af því að hún hefir alla tíð verið í íþróttum. Samhliða golfinu var hún áður í ballett, steppi og stökk af 10 metra stökkpalli í dýfingum í sundprógrammi, sem hún tók þátt í, jafnvel þó hún hafi aldrei verið góð sundkona.
McLean segir fjölskylduna mjög samrýmda og Lucy þyki afskaplega vænt um eldri bróður sinn, Luke, sem sé við nám í Princeton. Eins og í svo mörgum tilvikum með hæfileikaríkar golfkonur þá fékk Lucy áhuga á golfi með því að fylgja bróður sínum á golfvöllinn og horfa á hann æfa. Svo fór að hún tók sjálf upp kylfu og fór að slá.
„Ég er viss um að náið verður fylgst með Li-fjölskyldunni í Pinehurst,“ sagði McLean. „Ég hugsa að hún muni standa sig. Hún er með þetta í hendi sér en þetta er harður heimur. Hún er að keppa á móti þeim bestu í heimi. Og þetta er að stökkva upp og fara fram úr sér um mörg stig.“
McLean verður þarna með litla skjólstæðingnum sínum og fjölskyldan er öll eins og klettur á bakvið hana – Team Lucy: foreldrarnir Amy og Warren, Luke bróðir hennar og Tao frænka hennar. Og síðan fylgist golfheimspressan spennt með. McLean segir að sama sé hvernig Lucy Li gangi þá sé þegar hægt að halda upp á bara að hún sé þarna.
Þess mætti í lokin geta að Lexi Thompson, sem þó var 8 mánuðum eldri en Lucy Li komst ekki í gegnum niðurskurð. Það er kannski markmið, þó ekki sé það raunhæft, en aðalatriðið er að safna dýrmætri reynslu í reynslubankann. Og eitt er algerlega öruggt: Lucy Li hefir tímann fyrir sér…..
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024



