Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 19. 2012 | 08:00

LPGA: Tseng og Pressel meðal þeirra sem spila í 16 manna úrslitum á Sybase mótinu

Í dag verður  Sybase mótinu í holukeppni fram haldið á Hamilton Farm Golfvellinum í New Jersey.  Keppni í 32 manna undanúrslitunum fór fram í gær og halda þær 16 sem komust áfram, fram keppni í dag.  Verður hér fjallað um hverjar þessar 16 eru, sem keppa í dag og helstu úrslit gærdagsins reifuð:

18. brautin á Hamilton Farm golfvellinum í Gladstone, New Jersey, þar sem Sybase meistaramótið í holukeppni fer fram dagana 17.-20. maí 2012 - Brady Mansion er í bakgrunni

Patty Berg riðillinn

Yani Tseng frá Taíwan g. Candi Kung frá Taíwan

Nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, Yani Tseng sýndi engin merki þess í gær að dregið væri af henni þegar hún vann bandarísku stúlkuna Katie Futcher 3&1. Allt var í stáli hjá þeim Kung og Haeji Kang allt fram að 17. holu, en fugl á 18. tryggði Candi Kung sigur. Það verða því löndurnar Tseng og Kung sem keppa í dag um sæti í 8 manna undanúrslitum; Kung er að leitast við að ná 1. sigri sínum á LPGA frá árinu 2008; Tseng keppist við að ná 4. sigri sínum á þessu keppnistímabili. Baráttan milli þessara stúlkna frá Taíwan er e.t.v. ein af þeim sem mesta athygli hlýtur á Hamilton Farm í dag.

Julieta Granada frá Paraguay g. Karine Icher frá Frakklandi

Granada þurfti ekki að spila 18 holur til þess að bera sigurorð af Ryann O’Toole. Granada innsiglaði sigurinn með tveimur fuglum í röð á 12. og 13. holu og lauk leiknum  6&5. Icher og Jennifer Johnson voru nokkuð jafnar á hring þeirra, en með fugli á 17. tryggði sú franska sér sigur  2&1. Báðar hafa Granada og Icher verið á uppleið í ár og báðar eru á höttunum eftir sigri, þeim fyrsta frá 2006 og 2005.

Karine Icher frá Frakklandi. Mynd: LPGA

Kathy Whitworth riðillinn

So Yeon Ryu frá Suður-Kóreu g. Katherine Hull frá Ástralíu

Nýliðastjarnan Ryu sýndi og sannaði í gær að hún væri mikil keppniskona þegar hún sigraði Minu Harigae á 16. holu og lauk leik þeirra 3&2. Hull, á hinn bóginn átti í nokkrum vandræðum með Mariajo Uribe og skiptust þær um að hafa yfirhöndina. Það þurfti að spila allar 18 holurnar til að skera úr um leikinn, sem hefði getað fallið á hvorn veginn sem var.  Ryu hefir verið mjög stöðug þetta keppnistímabil og hún gæti svo sannarlega stimplað sig inn á LPGA Tour með sigri. Hull mun þó eflaust halda Ryu á tánum, en hún hefir nú þegar 2 sigra á LPGA undir beltinu. 

Angela Stanford frá Bandaríkjunum g. Vicky Hurst frá Bandaríkjunum

Hurst hafði betur gegn nr. 5 á heimslista kvenna Cristie Kerr, en spila þurfti 19 holur til þess að tryggja sigurinn. Stanford á hinn bóginn lauk sínum leik fremur snemma, 4&3. Hún er álitin meðal þeirra sigurstranglegustu á morgun, en Hurst hefir svo sem áður haft betur gegn toppkylfingum sbr. Kerr og verður leikur þeirra spennandi.

So Yeon Ryu.

 Mickey Wright riðillinn

Na Yeon Choi frá Suður-Kóreu g. Morgan Pressel frá Bandaríkjunum

Na Yeon Choi hafði betur gegn löndu sinni Jenni Shin í gær og komst þar með í 3. umferð. Hún er að leitast við að tryggja sér 6. sigur sinn á LPGA. NY hefir staðið sig afburðavel það sem af er keppnistímabilisns, en hún var T-2 tvisvar á árinu á HSBC Women’s Champions 2012 og RR Donnelley LPGA Founders Cup. Pressel hefir mun meiri leikreynslu en NY. Pressel hefir spilað á 3 Solheim Cup keppnum f.h. Bandaríkjanna og auk þess sigraði hún á U.S. Women’s Amateur Championship, árið 2005.

Anna Nordqvist frá Svíþjóð g. Amy Yang frá Suður-Kóreu
Í þessum leik mætast þeir kylfingar sem e.t.v. þyrstir mest í sigur á LPGA. Meðan Yang hefir að marki að vinna fyrsta sigur sinn á LPGA þá er Nordqvist að reyna að sigra í fyrsta sinn frá því hún vann síðast árið  2009 á LPGA Tour Championship. Nordqvist vann Shin 2&1 í gær meðan Yang sló út Natalie Gulbis nokkuð örugglega 5&4.

Na Yeon Choi.

 Annika Sörenstam riðillinn

Jodi Ewart frá Englandi g. Azahara Muñoz frá Spáni
Jodie Ewart og Azahara Muñoz urðu að sigra tvo frábæra kylfinga til þess að stimpla sinn inn í 16 manna undanúrslitin í dag. Muñoz sigraði Amöndu Blumenherst sem var sigurvegari U.S. Women’s Amateur 2008. Frammistaða nýliðans enska Jodi Ewart er þó e.t.v. sú sem er athyglisverðust.  Hún sigldi inn í 2. umferð með því að sigra þá sem átti titil að verja, sigurvegar á Sybase mótinu frá síðasta ári Suzann Pettersen og í gær vann hún þar að auki hina sænsku Sophie Gustafson. Gaman að fylgjast með Ewart og athyglisvert hvernig Aza gengur með hana í dag!

Stacy Lewis frá Bandaríkjunum g. Sun Young Yoo frá Suður-Kóreu

Enn einn skemmtilegi leikurinn í dag, þar sem spila sigurvegarar tveggja Kraft Nabisco Champions risamóta á LPGA Stacy Lewis og Sun Young Yoo. Lewis sigurvegari Kraft Nabisco 2011 vann leik sinn 4&3 og fékk 5 fugla í 2. umferð. Lewis er sem stendur nr. 7 á Rolex-heimslistanum og vann einnig nú nýlega 2. sigur sinn á LPGA, þ.e.Mobile Bay LPGA Classic. Yoo, sem vann  Kraft Nabisco Championship þurfti að spila allar 18 holurnar til þess að hafa betgur gegn Jessicu Korda, sem gaf sig alls ekki auðveldlega, 2&0.  Yoo hefir áður sigrað Sybase Match Play Championship, árið 2010.

Jodi Ewart.