Ragnheiður Jónsdóttir | október. 28. 2012 | 12:00

LPGA: Suzann Pettersen sigraði á Sunrise LPGA Taíwan Championship

Það var norska frænka okkar, Suzann Pettersen, sem stóð uppi sem sigurvegari í Tayouan, Yang Mei, Taíwan á Sunrise LPGA Taíwan Championship mótinu. Þetta er 2. sigur hennar í röð á LPGA en hún sigraði aðeins fyrir viku síðan á Hanabank Championship í Incheon í Suður-Kóreu.

Með þessu er hún 6. leikmaður LPGA á þessu 2012 keppnistímabili til þess að sigra í fleirum en 1 móti keppnistímabilsins og hún er aðeins ein af 3 kvenkylfingum LPGA til þess að sigra tvö mót í röð: hinum sem það tókst í ár eru Yani Tseng sem sigraði á RR Donnelley LPGA Founders Cup og síðan the Kia Classic viku eftir viku í mars nú fyrr á árinu og Jiyai Shin sem sigraði á the Kingsmill Championship og síðan the RICOH Women’s British Open nú í september s.l.

Þetta er 10. sigur Pettersen á LPGA og 15. alþjóðlegi sigur hennar sem atvinnukylfings.

Suzann var á skori upp á samtals 19 undir pari, 269 högg (69 65 66 69) og vann sér inn $ 300.000 (u.þ.b. 36 milljónir íslenskra króna). Hún átti 3 högg á Inbee Park sem var á samtals 16 undir pari, 272 höggum (65 69 65 74) og átti afleitan lokahring miðað við dagana á undan.

Í 3. sæti varð Yani Tseng á samtals 15 undir pari; Catriona Matthew frá Skotlandi varð í 4. sæti á samtals 14 undir pari og So Yeon Ryu reif sig glæsilega úr 15. sætinu sem hún var í fyrir lokahringinn og lauk leik í 5. sæti eftir lokahring upp á 68 högg og var samtals á 10 undir pari.

Til þess að sjá úrslitin á Sunrise LPGA Taíwan Championship SMELLIÐ HÉR: