Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 22. 2013 | 10:00

LPGA: Stacy Lewis heldur forystunni í Thaílandi eftir 2. dag Honda LPGA Classic

Bandaríski kylfingurinn Stacy Lewis er enn í forystu eftir 2. keppnisdag Honda LPGA Classic mótsins, sem hófst í gær á  Pattaya Old Course í Síam CC, í Chonburi,  Thaílandi.

Stacy Lewis er samtals búin að spila á 12 undir pari, 132 höggum (63 69).  Í dag fékk Lewis 5 fugla, 11 pör og 2 skolla.

Næst á eftir Lewis, í 2. sæti, kemur heimakonan Ariya Jutanugarn, sem sigraði svo glæsilega á  lokaúrtökumóti Q-school LET þ.e. Lalla Aicha Tour School 2013 í Marokkó (Golf 1 er að kynna „Nýju stúlkurnar á LET“ og verður Ariya, sigurvegarinn, kynntur í lokagreininni þ.e. þeirri 43. af 43 sem birtar verða). Ariya er búin að spila á 9 undir pari, 135 höggum (69 66) í Honda LPGA Classic mótinu og er eins og áður segir á heimavelli.

Þriðja sætinu deila spænski kylfingurinn Beatriz Recari, So Yeon Ryu frá Suður-Kóreu og hin skoska Catriona Matthew, en allar eru þær búnar að spila á samtals 8 undir pari, 136 höggum, hver.

Af öðrum einstökum kylfingum mætti geta að Lydia Ko deilir 9. sæti með 3 öðrum kylfingum, sem allar hafa spilað á samtals 4 undir pari, 140 höggum, hver.

Lexi Thompson og „norska frænka okkar“ Suzann Pettersen eru meðal 5 kylfinga, sem deila 13. sætinu sem stendur en allar er þær búnar að spila á samtals 3 undir pari, 141 höggi, hver.

Sú sem á titil að verja Yani Tseng er í hópi 8 kylfinga (sem í eru m.a. Cristie Kerr og Sandra Gal) og deila 25. sætinu, en allar í þeim hópi hafa spilað á samtals 1 undir pari, 143 höggum hver.  Í þessum 8 kylfinga hópi er líka franska stúlkan Karine Icher, sem átti afleitan hring upp á 77 högg í morgun og hrundi niður skortöfluna úr 2. sætinu, sem hún var í, í gær, en eftir 1. dag var hún á 66 höggum og því 11 högga munur milli daga.

Á þessu sést að skammt er stórra högga á milli og margt getur enn gerst, því allt opið og spennandi helgi framundan í kvennagolfinu!

Til þess að sjá stöðuna eftir 2. dag á Honda LPGA Classic 2013  SMELLIÐ HÉR: