Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 7. 2012 | 09:15

LPGA: Pornanong Phatlum vann Brazil Cup

Það var hin thaílenska Pornanong Phatlum, sem stóð uppi sem sigurvegari á Brazil Cup 2012, en mótið var 2 hringja og fór fram nú um helgina. Phatlum spilaði hringina tvo á samtals -13 undir pari -; fyrri hringinn á 66 höggum (þ.e. -7 undir pari) og þann seinni, í gær á 67 höggum (-6 undir pari).

Hún átti 4 högg á þá sem næst kom en það var Amy Hung frá Taíwan. Eftir fyrri dag þessa óopinbera LPGA móts deildi Phatlum 1. sætinu með hinni frönsku Karine Icher.  Í gær, seinni dag mótsins, tók Phatlum forystuna þegar hún fékk geysigóða byrjun 5 fugla á fyrri 9 og lauk hringnum sem segir á -6 undir pari.

Sú sem átti titil að verja var hin kólombíanska Mariajo Uribe, sem nú spilar á LPGA. Árið þar áður vann Meaghan Francella frá Bandaríkjunum og hin skoska Catriona Matthew vann 2009.

Eftir sigurinn sagði Phatlum, „Ég er svo ánægð í dag. Ég spilaði virkilega vel í dag og spilaði mitt golf. Ég er bara mjög hamingjusöm.“ Hún fékk smá aðstoð frá bróður sínum Pornpong, sem var kaddý hjá henni. Um það sagði Phatlum: „Við skemmtum okkur og kaddýinn, bróðir minn hjálpaði mér að einbeita mér, Hann hjálpaði mér að halda einbeitingu og hélt mér inni í leiknum.“

Pornanong er nr. 76 á Rolex-heimslista kvenna og spennandi að sjá hvort hún bætir sig í dag.

Til þess að sjá úrslitin á Brazil Cup smellið HÉR: