Ragnheiður Jónsdóttir | október. 25. 2013 | 11:00

LPGA: Pettersen leiðir í Taíwan

Hola í höggi varð til þess að Suzann Pettersen jók enn forystu sína á  Sunrise LPGA Taiwan Championship í dag en Suzann er nú með 5 högga forystu á næstu keppendur eftir aðeins 2 keppnisdaga.

Eftir 1. dag var Suzann með 3 högga forystu eftir hring upp á 68 og hún fylgdi honum eftir í dag með hring upp á 69, þar sem hún fékk m.a. ás á 2. holu vallarins af 133 yarda (122 metra) færi. Samtals er Suzann á 7 undir pari, 137 höggum (68 69).

Solheim stjarnan Pettersen fékk líka fugl á 9. braut;  lauk fyrri 9 á 33 höggum og tók skolla á 14. aftur með fugli á 18. holu.

Carlota Ciganda og Yoo Sun-young eru á samtals 2 undir pari hvor, 5 höggum á eftir Pettersen.

Um ásinn sagði Pettersen: „Ég sló boltann nákvæmlega eins og ég ætlaði mér og var heppin að hann fékk á sig gott breik. Þetta var mjög gott högg. Það er fínt að fara holu í höggi þegar maður getur séð höggið fyrir sér og tekið í gikkinn síðan (og framkvæmt það).“

„Í dag var virkilega erfiður dagur. Vindurinn varð sterkari og sterkari og það er svo sannarlega ekki auðvelt þarna úti. Vindurinn og aðstæður reyna á alla þætti leiksins.“

„Þegar maður stendur yfir púttum finnur maður fyrir vindinum á líkamanum. Þetta er andlega erfitt, en þetta er líka skemmtilega krefjandi. Ég hef verið að spila virkilega stöðugt golf og mér finnst gaman að vera þar sem ég er eftir tvo keppnisdaga,“ sagði Suzann Pettersen loks.

Til þess að sjá heildarstöðuna þegar Sunrise LPGA Taiwan Championship er hálfnað SMELLIÐ HÉR: