Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 13. 2014 | 12:00

LPGA: Pettersen efst e. 1. dag í Ástralíu

Norski kylfingurinn Suzann Pettersen tók forystuna á ISPS Handa Women´s Australia Open, sem hófst nú í morgun.

Hún lék á 6 undir pari, 66 höggum.

Suzann fékk 9 fugla og 3 skolla í The Victoria Golf Club, þar sem mótið fer fram og er með 1 höggs forystu á þær Jessicu  Korda, Hee Young Park, Jaclyn Sweeney og Marion Ricordeau.

Tíu kylfingar deila síðan 6. sætinu á 4 undir pari, þ.e. 2 höggum á eftir Pettersen, en það eru m.a. Lydia Ko, Caroline Hedwall og Paula Creamer.

Þetta er fyrsta mót Suzann á árinu og það virtist taka hana svolítinn tíma að henni fyndist þægilegt að spila á vellinum, sbr. hennar eigin orð:

„Mér fannst að það tæki mig nokkrar holur að koma mér þægilega fyrir. Eitt af því sem hægt er að gera er að fara og spila æfingahring með tveimur boltum, slá þeim seinni þangað sem hann átti að fara ef sá fyrri fór ekki þangað. Í dag er þetta auðvitað öðruvísi þegar maður verður að leika boltanum þar sem hann liggur og skila inn skorkorti. En það var gott að finna smá hjartslátt aftur og reyna við högg og sjá hvernig hægt var að framkvæma þau.“