Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 4. 2017 | 23:00

LPGA: Óvænt úrslit í Lorenu Ochoa holukeppninni

Í holukeppnum getur allt skeð; það vita flestir kylfingar.

Í dag hófst Lorenu Ochoa holukeppnin og hófu 64 LPGA kylfingar keppni; Ólafía „okkar“ Þórunn Kristinsdóttir ekki þar á meðal.

Ýmis óvænt úrslit eru eftir 64-manna keppnina og önnur sem koma minna á óvart.

T.a.m. kom fæstum á óvart að nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna Lydia Ko skyldi sigra heimakonuna Önu Menendez 3&2; það sem kom e.t.v. á óvart við þá viðureign var hversu lengi Ana stóð í hárinu á Ko.

Það kom heldur ekkert á óvart að norska frænka okkar Suzann Pettersen, sem spilað hefir í 8 Solheim Cup keppnum vann nr. 131 á Rolex heimslistanum, Katie Burnett, 2&1. En Burnett var feykisterk og frænkan varð að hafa fyrir sigrinum.

Nr. 7 á Rolex-heimslistanum, Shanshan Feng sigraði fyrsta ísraelska kylfinginn á LPGA, Laetitiu Beck í fremur ójafnri viðureign 7&5 og eins tók Ariya Jutanugarn, Amy Anderson í bakaríið 5&4.

Það sem kom e.t.v. mest á óvart var að hin sænska Pernilla Lindberg ynni Solheim Cup stjörnuna bandarísku, Gerinu Piller 2&1. Það er væntanlega nokkuð sem farið hefir undir smásjánna á fyrirliðum Solheim Cup, Anniku Sörenstam og Juli Inkster.

Hin spænska Beatriz Recari lét Brittany Lang líka hafa fyrir sigri sínum og leikar fór á 19. holu; e.t.v. kemur það ekki svo á óvart.

Það sem kom á óvart var að hin ástralska Katherine Kirk tók nr. 13 á Rolex-heimslistanum, hina kanadísku Brooke Henderson, á 20. holu; en það var lengsta viðureign 64-manna keppninnar.

Michelle Wie vann viðureign sína g. Lizette Salas fremur auðveldlega 6&5 og Christina Kim fór með Jessicu Korda á 19. holu og lét  þá síðarnefndu hafa fyrir hlutunum þar til Korda vann 1 up (systir Jessicu Korda, Nelly tapaði hins vegar fyrir Charley Hull 2&1 – ekkert sem kom á óvart hér).

Vinkona Ólafíu Þórunnar, bandaríski nýliðinn á LPGA Angel Yin vann fremur óvænt gegn Jodi Ewart Shadoff 1 up! Yin mætir hinni japönsku Ayako Uehara í 32 manna keppninni; þar sem Uehara sigraði fyrrum nr. 1 á Rolex heimslistanum, Stacy Lewis 1 up, fremur óvænt að mati sumra.

Hér má sjá öll úrslit í 64 manna keppni Lorenu Ochoa holukeppninnar  SMELLIÐ HÉR:  og hverjar mætast í 32 manna viðureignunum SMELLIÐ HÉR: